Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Áhersla á samfélagslega mikilvægar námsbrautir og sjálfbærni

Haraldur Jónasson / Hari - mynd

Í nýútgefinni fjármálaáætlun, sem rædd verður á Alþingi í vikunni, kemur fram að eitt af meginmarkmiðunum er að fjárveitingar styðji betur við háskólagreinar sem gera Ísland að sjálfbærari þjóð. Í því sambandi eru sérstaklega nefndar tæknigreinar, matvælaframleiðsla, fiskeldi, veiðar, umhverfisvernd og sjálfbærni. Jafnframt er undirstrikað að aukið framboð verði á samfélagslega mikilvægum námsbrautum, t.d. í heilbrigðisþjónustu, kennslu, í verk- og tæknimenntun, raunvísindum, listum og tungumálum. 

Fram kemur að með stofnun ráðuneytis háskóla, iðnaðar og nýsköpunar gefist mikilvægt tækifæri til að samþætta betur málefni vísinda, háskóla, hugvits og nýsköpunar. Þar með verði þjóðin betur búin undir framtíðaráskoranir og geti treyst enn frekar hugvitið sem grunnstoð íslensks efnahagslífs.

Eitt mikilvægasta verkefni háskólastigsins er að endurskoða skipulag og reglur um fjárveitingar til háskóla segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar. „Leiðarljósið er að efla gæði náms háskóla og tryggja að þeir verði betur í stakk búnir til að sinna því mikilvæga hlutverki sem þeir hafa á tímum tæknibreytinga og hnattrænna samfélagslegra áskorana. Með því að byggja upp öflugt háskólanám í takti við þarfir nútímasamfélags tryggjum við betur að úr háskólum útskrifist einstaklingar sem fá störf við hæfi eða geti skapað sér áhugaverð tækifæri sem byggja á þekkingu, hugviti og nýsköpun,“ segir Áslaug Arna.

Fjármálaáætlun nær til áranna 2023-2027 og nemur umfang háskólastigsins um 60 ma.kr. á ársgrundvelli sem er um 5 ma.kr. aukning frá síðustu fjármálaáætlun. Áslaug Arna segist fagna aukningunni en með tryggum langtímafjárveitingum til háskóla verði unnt að fastráða  starfsfólk og efla gæði námsins.

Í áætluninni kemur fram að nýtt hús fyrir heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands á Landspítalalóð verði reist. Kostnaður vegna byggingarinnar er á tímabili áætlunarinnar 10,5 ma.kr. Þar að auki má nefna að helstu breytingar í núverandi fjármálaáætlun snúa að Menntasjóði námsmanna en þær má m.a. rekja til framfærslu barna, 3% fjölgunar nemenda og þess að framfærsla haldist í hendur við þróun verðlags.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta