Hoppa yfir valmynd
5. apríl 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Brýnt að auka bindingu kolefnis

Hægt er að ná umtalsverðum samdrætti í losun koltvísýrings með núverandi tækni og leggja þarf sérstaka áherslu á rafvæðingu samgangna á landi, notkun líf- og rafeldsneytis í þungaflutningum á sjó og í lofti, sem og föngun og förgun koltvísýrings. Þetta er meðal þess sem fram kom í kynningu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagráðherra á sjöttu skýrslu milliríkjanefndar S.þ. um loftslagsbreytingar (IPCC) á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Veðurstofa Íslands er tengiliður Íslands við milliríkjanefndina, og í þessum þriðja hluta  skýrslunnar sem kom út í gær er lagt mat á stöðu þekkingar á mótvægisaðgerðum vegna loftslagsbreytinga. Er þar horft til vísinda, tækni, umhverfislegra, efnahagslegra og félagslegra þátta sem varða samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis.

Í skýrslunni segir að losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu hafi aukist undanfarin áratug, þó að hægt hafi á aukningunni síðustu ár að hluta til vegna aðgerða stjórnvalda. Þá bendi sú stefna ríkja sem birtist í landsákvörðuðum framlögum ríkja (e. NDC) gagnvart Parísarsamningnum til ársins 2030 til samdráttar í losun miðað við venjubundna þróun. Þau framlög ná þó ekki að takmarka hlýnun við 1,5 °C og eigi að takast að halda hlýnun jarðar innan við 2 °C þarf árangur mótvægisaðgerða að aukast verulega.

Einnig kemur þar fram að hægt sé að ná umtalsverðum samdrætti í losun með núverandi tækni, kerfisbreytingum og breyttri hegðun. Mikilvægt sé þó að halda áfram að vinna að tækniþróun og er sérstök áhersla lögð á rafvæðingu samgangna á landi, notkun líf-, raf- og tilbúins eldsneytis í þungaflutningum á sjó og í lofti, rafvæðingu iðnaðar, aukna notkun lágkolefnis efna og orku, sem og föngun og förgun koltvísýrings.

„Það er afar brýnt er að vinna að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og auka bindingu kolefnis á heimsvísu. Það er hægt að helminga losun fyrir árið 2030 og þar ætlar Ísland að vera í fremstu röð.  Orkuskiptin eru mikilvægur liður í að þau markmið náist og eins er mikilvægt að nýta íslenskt hugvit og lausnir,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta