Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2022 Utanríkisráðuneytið

Rússland svipt þátttökurétti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna

Fundarsalur mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf. - myndUN Photo

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti í dag ályktun um að fella niður þátttökurétt Rússlands vegna setu þeirra í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna í ljósi alvarlegra og kerfisbundinna mannréttindabrota í tengslum við stríðið í Úkraínu. Ísland var á meðal þeirra ríkja sem lögðu ályktunina fram í allsherjarþinginu. Alls kusu 93 aðildarríki með ályktuninni, 24 voru á móti henni og 58 ríki sátu hjá. Í framhaldi af ákvörðun allsherjarþingsins ákvað Rússland að segja sig frá setu í ráðinu.  

„Ákvörðunin sem allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna tók í dag gefur skýr skilaboð um að meiriháttar alvarleg og kerfisbundin mannréttindabrot af hálfu aðildarríkis mannréttindaráðsins, eins og við höfum séð í Úkraínu, verði ekki látin óátalin,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. „Þá ber Rússland, sem fastaríki í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, jafnframt aukna ábyrgð og skyldur til að fara að alþjóðalögum.“ 

Í ályktuninni er lýst yfir alvarlegum áhyggjum af stöðu mannréttinda- og mannúðarmála vegna innrásarinnar í Úkraínu og þeirra frétta sem berast af brotum Rússlands á mannréttindum og mannúðarlögum. Í ályktuninni er lagt til að allsherjarþingið svipti Rússlandi þátttökurétti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna og að sú ákvörðun verði endurskoðuð eins og þurfa þykir. Byggir ákvörðunin á stofnályktun ráðsins frá árinu 2006 sem gerir ráð fyrir þeim möguleika að hægt sé að vísa aðildarríki úr ráðinu ef það verður uppvíst að meiriháttar kerfisbundnum og alvarlegum mannréttindabrotum. Ísland átti sæti í mannréttindaráðinu á árunum 2018 til 2019.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta