Hoppa yfir valmynd
8. apríl 2022 Forsætisráðuneytið

Fulltrúar lettneskrar stofnunar sem vinnur gegn spillingu heimsóttu forsætisráðuneytið

Fulltrúar frá KNAB ásamt ráðgjafa um upplýsingarétt almennings. - mynd

Fulltrúar frá KNAB, stofnun á vegum lettneskra stjórnvalda sem vinnur gegn spillingu, heimsóttu forsætisráðuneytið í vikunni. Markmið heimsóknarinnar var að skiptast á upplýsingum og styrkja samstarf Íslands og Lettlands á sviði opinberra heilinda og varna gegn spillingu.

Á fundi fulltrúa KNAB og forsætisráðuneytisins var m.a. rætt um upplýsingalög, lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum í Stjórnarráði Íslands og lög um vernd uppljóstrara. Þá var rætt um áskoranir tengdar frændhygli og hagsmunaárekstrum í minni samfélögum.

KNAB er sjálfstæð opinber stofnun sem heyrir undir forsætisráðherra Lettlands. Verkefni stofnunarinnar er að vinna gegn spillingu með fyrirbyggjandi aðgerðum og fræðslu en stofnunin hefur einnig lögregluheimildir.

Í heimsókn sinni til Íslands funduðu fulltrúar KNAB einnig með dómsmálaráðuneytinu, héraðssaksóknara, Ríkisendurskoðun, stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, umboðsmanni Alþingis, Íslandsdeild Transparency International og fulltrúum frá fjölmiðlum.

Heimsókn KNAB til ráðuneyta og stofnana á Íslandi er hluti af verkefni stofnunarinnar um að koma á fót kerfi fyrir uppljóstrara í Lettlandi. Verkefnið hefur hlotið styrk úr Uppbyggingarsjóði EES.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta