„Getum lært margt af Dönum á sviði hönnunar og skapandi greina“
Hönnun og hugvit sem útflutningsvara og hlutverk hennar í ímyndarsköpun og verðmætasköpun var meðal þess sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra kynnti sér í Kaupmannahöfn í vikunni. Ráðherra heimsótti helstu lykilaðila hönnunar í Danmörku, þar sem talið DDC – dönsku hönnunarmiðstöðina, DAC miðstöð arkitektúrs í Danmörku og Creative Danmark sem styður við skapandi greinar í alþjóðlegri markaðssókn.
Umfang hönnunar, arkitektúrs og annarra skapandi greina hefur farið vaxandi í dönsku hagkerfi undanfarin ár. Tugir þúsunda starfa innan skapandi greina þar í landi og hefur vöxtur í útflutningi greinanna verið um 4.8% árlega síðan 2011. Árið 2020 fóru útflutningsverðmæti skapandi greina yfir 14 milljarða evra en tískuvarningur er til að mynda fjórða stærsta útflutningstoð Danmerkur. Dönsk stjórnvöld hafa lagt aukinn þunga í stefnumótun fyrir skapandi greinar með sérstökum sóknaráætlunum.
„Hönnun og arkitektúr snerta daglegt líf okkar á ótal vegu. Það er gott að fá þann innblástur um málefni hönnunar og arkitektúrs, út frá sjónarhóli skapandi greina, mikilvægi sjálfbærrar framleiðslu og hagnýtingar hönnunarhugsunar fyrir atvinnulíf og stjórnvöld. Danir leggja mikla áherslu á að auka útflutningsverðmæti skapandi greina með markvissum hætti. Við getum lært margt af þeim á sviði hönnunar og skapandi greina og við erum staðráðin í að auka hlut þessara atvinnuvega í íslensku hagkerfi,“ segir ráðherra.