Heilbrigðisráðherra heimsækir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
Heilbrigðisráðherra var í gær viðstaddur opnun nýrrar röntgendeildar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Röntgendeildin er fyrsti áfangi tengdur endurbótum á nýrri aðstöðu bráðamóttöku stofnunarinnar. Mikið hagræði verður fyrir starfsfólk og þjónustunotendur af staðsetningu nýrrar röntgendeildarinnar við hlið nýrrar aðstöðu bráðamóttöku. Nýtt röntgentæki auðveldar einnig vinnu starfsfólks og auk þess er von á nýju segulómunartæki sem nú er í útboðsferli með innkaupum fleiri heilbrigðisstofnanna á landinu á segulómunartækjum. Ný tækni mun jafnframt draga úr þörf fyrir að þjónustunotendur þurfi að sækja myndgreiningarþjónustu til Reykjavíkur.
Ráðherra skoðaði einnig framkvæmdir við nýja 19 rúma endurhæfingardeild og dagdeild sem tekin verður í notkun seinna á þessu ári.