Samningar um aukið fjármagn til hjúkrunarheimila og úrbætur til framtíðar
Fjármagn til hjúkrunarheimila verður aukið og þjónusta við íbúa bætt samkvæmt nýgerðum samningum Sjúkratrygginga Íslands um rekstur og þjónustu hjúkrunarheimila á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu. Samningarnir eru til þriggja ára og nemur heildarfjármagn til þeirra tæpum 130 milljörðum króna. Á samningstímanum verður unnið að verkefnum sem miða að bættu rekstrarumhverfi heimilanna til framtíðar og auknum gæðum þjónustu þeirra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra: „Þetta eru mikilvæg tímamót. Nú eru gildir samningar til lengri tíma við rekstraraðila allra þeirra 45 hjúkrunarheimila sem starfa víðsvegar um landið samkvæmt samningum við Sjúkratryggingar Íslands. Þetta eru samningar gerðir í góðri sátt. Tímann framundan munum við nýta vel til skilgreindra verkefna sem miða að því að bæta rekstrarumhverfi heimilanna og efla gæðastarf, m.a. með endurskoðun núverandi greiðslukerfis“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Í viljayfirlýsingu heilbrigðisráðherra þessa efnis kemur m.a. fram að nú sé unnið að vinnu þvert á ráðuneyti varðandi þjónustu við yngri einstaklinga sem þurfa á mikilli hjúkrun og umönnun að halda. Unnið er samkvæmt stefnumörkun sem tekur mið af því að þessir einstaklingar fái þjónustu við hæfi utan stofnana.
Rekstrargrunnur hjúkrunarheimilanna hefur verið styrktur um 1 milljarð króna á ársgrundvelli, framlög vegna betri vinnutíma aukin um 1,2 milljarða króna, auk rúmlega 570 milljóna króna til að mæta aukinni hjúkrunarþyngd, styrkja litlar rekstrareiningar með svokölluðu smæðarálagi og eflingu kostnaðarútlagasjóðs.
María Heimisdóttir forstjóri Sjúkratrygginga: „Þessir samningar eru mikilvægt skref í því að þróa áfram þessa mikilvægu þjónustu og við erum þakklát okkar viðsemjendum fyrir gott og faglegt samstarf um þjónustu við þennan mikilvæga hóp. Við teljum viljayfirlýsingu ráðherra um frekari þróun þjónustu við sértæka hópa mjög jákvæða og einnig er mikilvægt að þróa áfram greiðslulíkanið þannig að það styðji sem best við gæði þjónustunnar og öryggi íbúa. Það eru því mörg mikilvæg samstarfsverkefni framundan og verður spennandi að taka þátt í þeim.“
Björn Bjarki Þorsteinsson, formaður Samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu: "SFV fagnar nýrri sýn heilbrigðisráðherra og stjórnvalda sem birtist í samningunum og felst í því að styrkja rekstrargrunn hjúkrunarheimila og efla þannig og byggja upp þjónustu þeirra. Þar eru tekin skref í átt til þess að fjármunir fylgi kröfum sem gerðar eru um gæði og magn þjónustunnar sem á að veita. Heilsa og öryggi íbúa hjúkrunarheimila á alltaf að vera í forgangi og nýir samningar hjálpa okkur að tryggja að svo verði áfram."
Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands Íslenskra sveitarfélaga: „Sambandið fagnar nýjum samningum um þjónustu hjúkrunarheimila þar sem rekstrargrundvöllur þeirra er styrktur. Samningstími til þriggja ára gefur svigrúm til að endurskoða t.a.m. mats- og greiðslukerfi vegna hjúkrunarheimila þannig að greiðslur séu í samræmi við raunverulega þjónustu hverju sinni. Einnig er mjög mikilvægt að sem fyrst verði fyrirkomulag húsnæðismála skoðað í samræmi við samninginn.“