Utanríkisráðherra fundar með ráðamönnum í Litháen
Öryggis og varnarmál, einkum í tengslum við innrás Rússlands í Úkraínu, og söguleg tengsl Íslands og Litháen, voru efst á baugi í vinnuferð Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra í Vilníus í dag.
Sterk vinabönd ríkjanna tveggja voru í forgrunni funda með Viktoriju Čmilytė-Nielsen, forseta litháíska þingsins, og Gabrielius Landsbergis, utanríkisráðherra Litháen. Í Vilníus er haldin þakkarhátíð til heiðurs Íslandi á 17. júní ár hvert.
„Móttökurnar í Litháen eru afar hlýjar og ég skynja vel þá miklu vináttu og velvilja sem Ísland nýtur í landinu vegna þess hlutverks sem við lékum í þeirra sjálfstæðisbaráttu,“ segir Þórdís Kolbrún.
Ráðherra hitti auk þess Arvydas Anušauskas, varnarmálaráðherra Litháen. Innrásin í Úkraínu og breytt öryggisumhverfi Evrópu var í brennidepli á öllum fundum dagsins, þar með talið hlutur Belarús í stríðinu. Samskipti við Kína og vaxandi áhrif þess í alþjóðasamfélaginu voru einnig til umræðu og góð samvinna ríkjanna á vettvangi alþjóðastofnana, sérstaklega Atlantshafsbandalagsins.
„Sú staða sem komin er upp í alþjóðamálum undirstrikar mikilvægi þess að standa vörð um mannréttindi og lýðræðisleg gildi. Það eru þessi gildi sem þetta stríð snýst í rauninni um,“ segir Þórdís Kolbrún. „Litháar þekkja öðrum betur þá ógn sem steðjar að og hafa lengi varað við henni. Það er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að kynna okkur þeirra upplifun til að skilja til hlítar þýðingu breytts öryggisumhverfis í Evrópu.“
Þórdís Kolbrún heimsótti einnig öndvegissetur Atlantshafsbandalagsins um orkuöryggi sem staðsett er í Vilníus. Þess má geta að Ísland hefur lagt til borgaralegan sérfræðing í samstöðuaðgerðir Atlantshafsbandalagsins í Litháen frá árinu 2017. Nýverið tók Þórir Guðmundsson við stöðunni sem jafnan er ráðið í til tveggja ára hverju sinni.