Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2022 Utanríkisráðuneytið

Varnaræfingin Norður-Víkingur 2022 í Hvalfirði

Svifnökkvi kemur á land við Miðsand í Hvalfirði. - myndVilhelm Gunnarsson / utanríkisráðuneytið

Varnaræfingin Norður-Víkingur 2022 náði hápunkti í dag með æfingu landgönguliða í Hvalfirði. Fjölmenni fylgdist með æfingunni, þar á meðal fulltrúar ríkisstjórnarinnar og yfirmenn í herafla Bandaríkjanna.

Tvær þyrlur og tveir svifnökkvar af bandaríska herskipinu USS Arlington fluttu bandaríska og breska landgönguliða í land við Miðsand í Hvalfirði. Landgönguliðarnir æfðu sig í að tryggja fyrirfram skilgreint svæði og koma á land ökutækjum og ýmsum búnaði. Öllum markmiðum æfingarinnar var náð og þótti hún heppnast mjög vel.

Stjórnendur æfingarinnar, þeir Eugene Black aðmíráll 6. flota bandaríska sjóhersins og undirhershöfðinginn Francis L. Donovan lýstu fyrir viðstöddum markmiðum og framkvæmd æfingarinnar. Auk þeirra var Daniel W. Dwyer, aðmíráll 2. flota bandaríska sjóhersins viðstaddur.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fylgdist með æfingunni í fjarveru Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra en hún er stödd erlendis. Jafnframt voru viðstaddir alþingsmenn, embættismenn og fulltrúar erlendra ríkja á Íslandi, auk fjölmiðla.

Utanríkisráðuneytið, ásamt Landhelgisgæslu Íslands og embætti ríkislögreglustjóra hafa staðið að skipulagningu Norður-Víkings 2022 undanfarna mánuði í samvinnu við 6. flota bandaríska sjóhersins. Æfingin hófst 2. apríl og hefur farið að mestu fram á hafinu í kringum Íslands og á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Megintilgangur æfingarinnar er að æfa varnir sjóleiða umhverfis Ísland og mikilvægra öryggisinnviða en einnig leit og björgun á sjó og landi og hefur Landhelgisgæslan tekið virkan þátt í þeim hlutum æfingarinnar. Æfingunni lýkur 14. apríl.

 

  • Varnaræfingin Norður-Víkingur 2022 í Hvalfirði - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta