Utanríkisráðherra á fundi utanríkisráðherra ESB
Utanríkisráðherrar Íslands og Noregs voru gestir á fundi utanríkisráðherra Evrópusambandsins (Foreign Affairs Council) í Lúxemborg í dag og áttu auk þess tvíhliða fund með Josep Borrell, utanríkismálastjóra Evrópusambandsins. Ísland og Noregur hafa tekið virkan þátt í aðgerðum sambandsins gegn Rússlandi frá því að innrásin í Úkraínu hófst og því var utanríkisráðherrum ríkjanna boðið til fundarins til að ræða næstu skref. Þetta er í fyrsta skipti sem utanríkisráðherra Íslands er boðið að sækja formlegan fund utanríkisráðherraráðs ESB.
„Á fundinum gafst einstakt tækifæri til að ræða málin við okkar vinaþjóðir. Ég var þakklát boði Borrell sem sýnir hversu þétt við höfum staðið saman að undanförnu og hversu virk þátttaka okkar hefur verið í sameiginlegum viðbrögðum Evrópuríkja við stríðinu í Úkraínu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. „Við lítum á EES samninginn sem einn af hornsteinum okkar utanríkisstefnu og er því mikilvægt að rækta gott samstarf og samráð við ESB.“
Þórdís Kolbrún kom á framfæri samstöðu Íslands í öllum ráðstöfunum gegn Rússlandi og Belarús, þar með talið frekari efnahagsþvingunum. „Ég lagði áherslu á að sameiginleg gildi Evrópuríkja um mannréttindi og lýðræði væru undir í þessari baráttu og hversu mikilvægt það væri að styðja Úkraínu með öllum ráðum,“ segir Þórdís Kolbrún.
Á fundi sínum með Borrell og Anniken Huitfelt, utanríkisráðherra Noregs, var Úkraína sömuleiðis í brennidepli. Þau ræddu einnig víðari áhrif átakanna og nauðsyn þess að veita frekari mannúðaraðstoð utan Úkraínu í ljósi hækkandi matvælaverðs og skorts vegna stríðsins. Vegvísir Evrópusambandsins í öryggis- og varnarmálum og samstarf Evrópusambandsins og Atlantshafsbandalagsins voru einnig til umræðu, sem og samskipti við Kína.
Þá heimsótti utanríkisráðherra einnig EFTA-dómstólinn í Lúxemborg í dag og átti fund með Páli Hreinssyni, forseta dómstólsins.