Nýr samningur um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu
Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) og Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins (SHS) hafa gert með sér nýjan samning um sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu til næstu fimm ára.
Samningurinn var formlega undirritaður og staðfestur þriðjudaginn 12. apríl af Willum Þór Þórssyni, heilbrigðisráðherra, Maríu Heimisdóttur, forstjóra SÍ, Degi B. Eggertssyni, formanni stjórnar SHS og Runólfi Pálssyni, forstjóra Landspítala, á slökkvistöð SHS í Skútahrauni í Hafnarfirði.
„Að ná saman um svo þýðingarmikla heilbrigðisþjónustu er okkur sem störfum í heilbrigðiskerfinu afar mikilvægt og við þekkjum það hversu veigamikill hlekkur sjúkraflutningar eru í þessari keðju; heild og tengiliður í samspili þjónustunnar,“ sagði Willum Þór við tilefnið en til marks um umfang þjónustunnar sem samningurinn fjallar um nemur kostnaður vegna hennar vel á annan milljarð króna á ári. Samningurinn tekur til allra sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu auk flutninga fyrir Landspítala.
Gæði og þróun í forgrunni
Í samningnum felast ýmis nýmæli sem miða að því að þróa og efla þjónustuna, með áherslu á aukið samstarf aðila um framkvæmd samningsins, þátttöku SHS í innleiðingu tækni- og fjarheilbrigðislausna og ákvæði sem festir hlutverk vettvangsliða í sessi. Þá er lögð aukin áhersla á gæði og þróun þjónustunnar.
Á samningstímanum verða jafnframt gerðar ákveðnar breytingar í sjúkraflutningum með það að markmiði að ná fram aukinni hagkvæmni í þjónustunni. Með aukinni samvinnu og samþættingu heilbrigðisþjónustu er markmiðið að draga úr þörf fyrir sjúkraflutninga með því að veita fullnægjandi úrlausn á staðnum.