Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2022 Innviðaráðuneytið

Viðræður hafnar um uppbyggingu á EGNOS-leiðsögutækni fyrir Ísland

Frá fundi með verkefnisstjórn EGNOS-áætlunarinnar. Frá vinstri eru: Sandrine de Backer þróunarstjóri EGNOS, Friðfinnur Skaftason, innviðaráðuneyti, Þorsteinn Jóhannesson, Isavia ANS, Hlín Hólm, Samgöngustofa, Sigurbergur Björnsson, utanríkisráðuneyti, Fatima Jalibert, verkfræðingur hjá EGNOS. Anne-Laure Vogel verkefnastjóri hjá EGNOS og Jean-Marc Pieplu, forstöðumaður EGNOS-verkefnisins. - mynd

Ísland gerðist aðili að EGNOS-áætlun Evrópusambandsins frá 1. janúar 2021 að telja. EGNOS-kerfið samevrópskt leiðsögukerfi og eykur notkunarmöguleika GPS gervihnattaleiðsögukerfisins. Markmið með þátttöku Íslands er að þjónusta EGNOS kerfisins verði aðgengileg um allt yfirráðasvæði Íslands en landið liggur nú vestast á jaðri þjónustusvæðis EGNOS.

Kerfið fylgist með GPS merkjum, vinnur úr þeim upplýsingar um m.a. áreiðanleika, nákvæmni og aðgengi, og sendir þær niðurstöður um gervihnetti við miðbaug til notenda. Með EGNOS má t.d. nýta GPS merki til leiðsagnar flugvéla sem koma inn til lendingar á flugvelli. Samkvæmt reglugerð sem innleidd hefur verið á grundvelli EES-samstarfsins er mælt fyrir um að EGNOS-tæknin verði ráðandi leiðsögutækni á flugvöllum í síðasta lagi árið 2030. Ákvörðun um þátttöku í áætluninni var m.a. tekin með það að leiðarljósi að EGNOS-tækni yrði í boði um alla efnahagslögsögu Íslands.

Í dag er EGNOS eingöngu í boði yfir austanverðu landinu en nokkuð vantar upp á að hún uppfylli þjónustukröfur á vestanverðu landinu. Í dag eru tvær vöktunarstöðvar, sk. RIM stöðvar, starfræktar á Íslandi, á Egilsstöðum og í Reykjavík. Í lok mars áttu fulltrúar innviðaráðuneytisins viðræður við verkefnastjórn EGNOS um uppbyggingu þjónustunnar fyrir Ísland. Fyrir liggur að setja þarf upp eina til tvær nýjar RIM stöðvar, að öllum líkindum á Grænlandi, til þess að þjónustan verði viðunandi um allt land.

Fulltrúar ráðuneytisins kynntu verkefnisstjórninni tillögu að tímasettri áætlun um uppbyggingu þjónustunnar fyrir Ísland. Verkefnastjórn EGNOS tók vel í tillöguna og taldi hana falla vel að heildaráætlun um útvíkkun þjónustusvæðis EGNOS. Rætt var um hvernig mætti hrinda áætluninni í framkvæmd og næstu skref í þeirri vegferð. Íslensku fulltrúarnir tóku að sér að safna ýmsum upplýsingum sem nauðsynlegar eru til þess að leggja mat á mögulegar staðsetningar RIM stöðva. Í framhaldi af því mun verkefnastofa EGNOS ráðast í tæknilegar greiningar og hermun í líkani um bestu mögulegu niðurstöðu á staðsetningu stöðvanna. Miðað er við að komin verði góð mynd á það fyrir árslok.

Í tengslum við fundina heimsóttu fulltrúar ráðuneytisins verkefnisstjórnina en einnig þjónustumiðstöð og rekstraraðila kerfisins, ESSP.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta