Forsætisráðherra fundaði með lögmanni Færeyja
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fundaði í dag með Bárði á Steig Nielsen, lögmanni Færeyja, í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra:
„Færeyingar og Íslendingar eiga fjölmargt sameiginlegt, tungumál, menningu, sögu og samfélagsskipan, og eiga auk þess sameiginlegra hagsmuna að gæta á Norður-Atlantshafi. Allt þetta er traustur grunnur áframhaldandi góðs samstarfs og vináttu.“
Á fundinum ræddu þau um innrásarstríð Rússlands í Úkraínu og þau áhrif sem stríðsátökin hafa á Færeyjar og Ísland. Bæði löndin styðja alþjóðlegrar þvingunaraðgerðir gagnvart Rússlandi og var rætt um efnahagsleg áhrif þeirra. Færeyjar og Ísland hafa tekið á móti flóttafólki frá Úkraínu og mun sendinefnd frá Færeyjum kynna sér það móttökukerfi sem komið hefur verið upp á Íslandi á næstunni.
Þá var rætt um hvernig efla má enn frekar tvíhliða samstarf s.s. á sviði viðskipta, rannsókna, menningar og menntunar og mikilvægi norrænnar og vestnorrænnar samvinnu en Ísland tekur við formennsku í Norrænu ráðherranefndinni um næstu áramót.