Árlegt samráð Íslands og Bandaríkjanna um öryggis- og varnarmál
Árlegt samráð Íslands og Bandaríkjanna um öryggis- og varnarmál fór fram í Reykjavík þriðjudaginn 26. apríl.
Í sameiginlegri yfirlýsingu Íslands og Bandaríkjanna í tilefni fundarins kemur meðal annars fram að ríkin hafi rætt öryggis- og varnarmál á Norður-Atlantshafi og samvinnu á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og á grundvelli tvíhliða varnar- og öryggissamstarfs. Í yfirlýsingunni kemur jafnframt fram að á fundinum hafi verið rætt um áframhaldandi samstarf um málefni eins og að tryggja í sessi alþjóðakerfið sem byggist á alþjóðalögum, áhrif Kína í Evrópu, norðurslóðir, netöryggi, aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og mannréttindi um allan heim. Þá árétta bæði ríkin fordæmingu á árásarstríði Rússlands og ítreka stuðning við Úkraínu. Í yfirlýsingunni er því jafnframt lýst yfir að varnarsamningurinn frá 1951 stuðli hér eftir sem hingað til að öryggi beggja ríkja.
Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, leiddi viðræðurnar fyrir Íslands hönd. Fulltrúar Íslands á fundinum komu frá utanríkisráðuneytinu, forsætisráðuneytinu, Landhelgisgæslu Íslands og sendiráði Íslands í Washington. Fulltrúar bandarísku sendinefndarinnar voru frá utanríkisráðuneyti, varnarmálaráðuneytinu, heimavarnarráðuneytinu, bandarísku strandgæslunni og sendiráði Bandaríkjanna í Reykjavík.