Ráðstefna um netöryggi á átakatímum haldin í Grósku
Netöryggi og netvarnir lykilinnviða í breyttu öryggisumhverfi voru í brennidepli á ráðstefnu um netógnir á átakatímum sem utanríkisráðuneytið stóð fyrir í Grósku í gær, í samvinnu við Evrópska öndvegissetrið um fjölþáttaógnir. Sjónum var beint að þeim hættum og ógnum sem steðjað geta að samfélagslega mikilvægum innviðum, stofnunum og þjónustu, sem í æ ríkari mæli reiða sig á hugbúnað, stafrænar þjónustur og aðgengi að netinu til að geta sinnt hlutverki sínu. Umræðan var sett í samhengi við núverandi öryggisástand og innrásina í Úkraínu, þar sem netárásum hefur verið beitt á kerfisbundinn hátt gegn helstu stofnunum og innviðum.
„Ísland er eitt af stofnríkjum Atlantshafsbandalaginu og þar tel ég blasa við að við völdum rétt lið. Atlantshafsbandalagsaðildin, ásamt varnarsamningi okkar við Bandaríkin, eru hornsteinar í öryggis- og varnarstefnu okkar. Virk þátttaka í alþjóðasamstarfi er grundvallarforsenda þess að við hér getum byggt upp nauðsynlega þekkingu og þar með öfluga ástandsvitund, viðnámsþol og viðbragðsgetu. Ég tel það skynsamlega stefna fyrir Ísland að leggja sérstaka áherslu á þátttöku í slíku alþjóðlegu samstarfi. En alþjóðasamstarf kemur vitaskuld ekki í staðinn fyrir nauðsynlega innlenda uppbyggingu,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í opnunarávarpi sínu.
Markmið ráðstefnunnar er að efla þekkingu og ástandsvitund og stuðla að markvissu samtali og samstarfi milli þeirra fjölmörgu aðila sem koma að eflingu netvarna mikilvægra innviða hérlendis. Nýleg aðild Íslands að öndvegissetrinu um fjölþáttaógnir í Helsinki og öndvegissetrinu um netöryggi í Tallinn opnar ýmis tækifæri á því sviði. Þátttakendur á ráðstefnunni voru fulltrúar úr stjórnsýslu sem og þeirra stofnana og fyrirtækja sem bera ábyrgð á rekstri þýðingarmikilla kerfa og innviða samfélagsins. Á ráðstefnunni fluttu erindi dr. Josef Schroefl, leiðandi sérfræðingur á sviði strategíu og varnarmála hjá Evrópska öndvegissetrinu um fjölþáttaógnir í Helsinki, Merie Maigre, fyrrum forstjóri Öndveigisseturs Atlantshafsbandalagsins í Tallinn um netöryggismál og Sigurður Emil Pálsson, sérfræðingur í netöryggismálum hjá utanríkisráðuneytinu.
Utanríkisráðuneytið mun hafa forgöngu um fleiri viðburði af þessu tagi, í samstarfi við alþjóðlega samstarfsaðila, svo sem öndvegissetrin í Helsinki og Tallinn til að stuðla að frekari uppbyggingu þekkingar og hæfni á sviði fjölþáttaógna og netöryggis hér á landi.