Fagráð um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu verður sett á fót
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að setja á fót fagráð um forgangsröðun í samræmi við ályktun Alþingis um siðferðileg gildi og forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu. Fagráðinu er ætlað að leiða faglega umræðu um forgangsröðun og siðferðileg gildi að baki henni og veita leiðsögn á þessu sviði. Ákvörðun ráðherra byggist á niðurstöðu starfshóps sem skipaður var á grundvelli þingsályktunarinnar.
Ráðherra segir mikilvægt að niðurstaða starfshópsins liggi fyrir. „Hópurinn hefur skilað vandaðri vinnu sem dregur skýrt fram hvað stofnun fagráðs um forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu er brýnt og þarft mál. Ég mun því setja af stað vinnu í ráðuneytinu við að hrinda þessu verkefni í framkvæmd.“
Markmið um forgangsröðun byggðri á sátt
Í þingsályktuninni sem Alþingi samþykkti í júní 2020 eru staðfest þau siðferðilegu gildi fyrir forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu sem fjallað er um í heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Þessi gildi eru; mannhelgi – þörf og samstaða – hagkvæmni og skilvirkni og skulu höfð að leiðarljósi við forgangsröðun í íslenskri heilbrigðisþjónustu „með það að markmiði að sátt ríki um samræmda og gagnsæja forgangsröðun.“
Starfshópur heilbrigðisráðherra fjallar í niðurstöðum sínum um nauðsyn opinnar umræðu um siðferðileg viðmið til að ná sameiginlegum skilningi á því hvað í þeim felst. Það sé forsenda þess að samræmis sé gætt þegar viðmiðin eru höfð til hliðsjónar við ákvarðanatöku. Engin nefnd eða ráð sé á Íslandi sem leiðir umræðu um siðferðileg gildi í heilbrigðisþjónustu – og þá sérstaklega forgangsröðun – eða útfærslu þeirra í þjónustunni. Þörf sé fyrir slíkan vettvang sem veiti stuðning við áætlanagerð og stefnumótun og vinni að sátt um samræmda forgangsröðun sem byggi á gagnsæi og faglegri umfjöllun. Þannig sé komið í veg fyrir dulda forgangsröðun, heldur byggi forgangsröðunin á skilgreindu og opnu ferli.
Ráðgefandi en ekki stjórnvald sem tekur ákvarðanir
Niðurstaða starfshópsins er sú að fagráðið eigi að vera ráðgefandi. Það muni því ekki taka einstakar ákvarðanir sem eru almennt á ábyrgð stjórnenda í heilbrigðisþjónustu. Gert er ráð fyrir að hlutverk fagráðsins verði að gefa út leiðbeinandi álit um forgangsröðun um ólík svið heilbrigðisþjónustunnar, samspil þeirra, sem og meðferða og tækninýjunga. Þá muni það einnig taka fyrir beiðnir heilbrigðisyfirvalda um álitamál í þessum efnum, auk þess að hafa frumkvæði að álitsgjöf þegar svo ber undir.
Í tillögu starfshópsins um skipun fagráðsins er gert ráð fyrir að þar eigi sæti sérfræðingar í siðfræði, ólíkum greinum heilbrigðisvísinda, lögfræði, heilsuhagfræði ásamt fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins. Hópurinn leggur einnig til að fagráðinu verði heimilt að kalla til ráðgjafar og samstarfs samtök sjúklinga sem tillögur að forgangsröðun kunna að snerta.
Formaður starfshópsins var Henry Alexander Henrysson, tilnefndur af Vísindasiðanefnd. Aðrir nefndarmenn voru Þórgunnur Hjaltadóttir tilnefnd af embætti landlæknis, Ólafur Baldursson, tilnefndur af Landspítala, Vilhjálmur Árnason, tilnefndur af Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og Hildur Svavarsdóttir, tilnefnd af Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins. Hópnum til aðstoðar voru Rögnvaldur G. Gunnarsson og Þórunn Oddný Steinsdóttir, lögfræðingar í heilbrigðisráðuneytinu.