Lilja fundaði með sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, fundaði með sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í tilefni af árlegri heimsókn starfsmanna sjóðsins. Heimsóknin er í samræmi við fjórðu grein stofnsáttmála stofnunarinnar sem kveður á um reglulegar heimsóknir stofnunarinnar til að kynna sér stöðu og horfur í efnahagsmálum aðildarþjóðanna ásamt því að veita þeim efnahagsráðgjöf. Á fundinum með ráðherra var fjallað um þróun alþjóðlegra efnahagsmála og alþjóðsviðskipta ásamt umræðu um efnahagsþróun innanlands þ.m.t. þátt ferðaþjónustunnar og viðskipta- og menningarmála.
Í forystu fyrir sendinefndinni er Iva Petrova, sem er ráðherra vel kunnug úr fyrri störfum meðal annars hjá Seðlabankanum og hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington. Iva Petrova er hér í sinni síðustu heimsókn á vegum AGS, en hún hefur um árabil starfað að málefnum sem tengjast Íslandi innan sjóðsins og átti meðal annars aðkomu að vinnu í tengslum við efnahagsáætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á árunum 2008-2011. Iva Petrova hefur verið í forystu fyrir sendinefndum til Íslands frá árinu 2019 og þakkaði ráðherra henni fyrir gott samstarf.
Hér má nálgast frekari upplýsingar um samskipti Íslands og AGS.