Hoppa yfir valmynd
2. maí 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

5% samdráttur í losun á beinni ábyrgð Íslands milli 2019-2020

Losun gróðurhúsalofttegunda sem er á beinni ábyrgð Íslands dróst saman um 5% milli áranna 2019-2020 og var 13% minni en árið 2005, sem er viðmiðunarárið fyrir loftslagsskuldbindingar Íslands. Mestur var samdrátturinn í losun frá vegasamgöngum, en aukning var í losun frá urðun úrgangs og jarðvarmavirkjunum.

Þetta er meðal þess sem fram kom í minnisblaði um niðurstöður úr losunarbókhaldi Íslands sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi á föstudag. Umhverfisstofnun skilaði, fyrr í þessum mánuði árlegri skýrslu til Evrópusambandsins og Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (UNFCCC)  um losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum.

Samdráttur í losun frá vegasamgöngum og aukning í losun vegna urðunar

Samkvæmt losunarbókhaldinu var árið 2020 losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, án losunar frá alþjóðaflugi, alþjóðasiglingum, landnotkun, breyttri landnotkun og skógrækt, en að meðtalinni stóriðju, 4.510 kílótonn af CO2-ígildum (kt CO2-íg.). Það er aukning um 22,7% frá  árinu 1990, en samdráttur um 4,3% varð milli áranna 2019 og 2020 og er líklegt að samdrátturinn sé að hluta til vegna Covid-19.

Meginbreytingar í losun milli áranna 2019 og 2020 eru:

·        15,6% aukning í losun frá urðun úrgangs

·        7,5% aukning í losun frá jarðvarmavirkjunum

·        13,1% samdráttur í losun frá vegasamgöngum

·        52,7% samdráttur í losun frá strandsiglingum

·        52,6% samdráttur í losun frá innanlandsflugi

·        4% samdráttur í losun vegna aukningar í bindingu í skógrækt

·        1,7% samdráttur í losun frá málmframleiðslu

Mesta aukning í losun sem fellur á beina ábyrgð Íslands á síðustu árum er frá vegasamgöngum, jarðvarmavirkjunum og vegna notkunar kælimiðla (F-gös). Losun frá fiskiskipum, staðbundnum eldsneytisbruna í framleiðslu- og byggingariðnaði og frá meðhöndlun úrgangs hefur dregist saman á meðan lítil breyting hefur orðið í losun frá landbúnaði á síðustu árum.

Heildarlosun Íslands má skipta gróflega upp í þrjá flokka út frá skuldbindingum:  losun  sem er á beinni ábyrgð Íslands (ESR), en það er öll losun landsins að undanskilinni  losun frá flugi (alþjóðaflugi og innanlandsflugi) og millilandasiglingum og þeirri losun sem fellur undir hina flokkana tvo, sem eru viðskiptakerfi ESB (ETS) og LULUCF sem nær yfir losun frá landnotkun og skógrækt.

Landnotkun og skógrækt stærsti losunarflokkurinn

Landnotkun og skógrækt eru er stærsti einstaki losunarflokkurinn og nam heildarlosun Íslands að  honum meðtöldum, 13.519 kt af CO2-íg. Það samsvarar 5% aukningu milli áranna 1990 og 2020, en  1,6% samdrætti milli áranna 2019 og 2020.

Umhverfisstofnun skilaði í marsmánuði inn skýrslu um stefnur, aðgerðir og framreikninga í loftslagsmálum (PaMs and Projections). Samkvæmt þeim útreikningum er áætlað að losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð Íslands verði 2.261 kt CO2-íg. árið 2030. Það samsvarar 28% samdrætti í losun árið 2030  og er Ísland því nálægt því að ná þeim 29% sem er hluti Íslands í núverandi sameiginlegu losunarmarkmiði Íslands, Noregs og Evrópusambandsins.

Sameiginlegt markmið ESB, Noregs og Íslands var hert í lok árs 2020 og hefur ekki verið staðfest hvert markmið á beina ábyrgð Ísland verður innan hins nýja 55% heildarmarkmiðs verður. Stjórnvöld hafa jafnframt sett sjálfstætt landsmarkmið um 55% samdrátt í losun sem fellur utan ETS-kerfisins fyrir 2030 miðað við 2005.

„Niðurstöðurnar segja okkur að við þurfum að herða okkur í loftslagmálum ef við ætlum að standa við loftslagsmarkmiðin. Ísland er á eftir mörgum þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við og  við þurfum að vinna hratt og við þurfum að vinna saman til að ná betri árangri,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. „Það er alveg ljóst að nú er komið að næsta áfanga í vegferðinni og þar þarf íslenskt atvinnulíf og sveitarfélög að stíga inn í aðgerðaráætlunina af fullum þunga, setja sér markmið og útbúa áætlanir til að markmið okkar náist.“

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta