Hoppa yfir valmynd
2. maí 2022 Dómsmálaráðuneytið

Dómsmálaráðherra og Landhelgisgæsla kanna hafnaraðstöðu fyrir varðskip

Landhelgisgæslan hefur í vetur skoðað hugmyndir um hafnaraðstöðu fyrir varðskip Landhelgisgæslunnar utan Reykjavíkur. Í janúar á þessu ári fékk Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra, Vilhjálm Árnason, þingmann til þess kanna möguleika á slíku á Suðurnesjum. Vilhjálmur leiddi viðræður Landhelgisgæslunnar og stjórnar Reykjaneshafnar um þann möguleika að nýta Njarðvíkurhöfn fyrir varðskip Landhelgisgæslunnar. Dómsmálaráðherra hefur tekið þá ákvörðun að Landhelgisgæslan fari þessa leið að því tilskyldu að samningar náist við sveitarfélagið um nauðsynlegar úrbætur og aðgerðir sem ráðast þarf í á hafnarsvæðinu.

Undanfarin ár hefur þrengt að varðskipum Landhelgisgæslunnar í Reykjavík vegna aukinnar umferðar skemmtiferðaskipa. Landhelgisgæslan hefur því lengi horft til þess að komast í varanlega aðstöðu með skipakost sinn þar sem hægt er að tryggja öryggi og starfsaðstöðu bæði fyrir áhafnir og þann búnað sem þarf til reksturs varðskipanna.

Til þess að af þessu verði þarf að tryggja margskonar aðstöðu fyrir skip og aðgerðir Landhelgisgæslunnar.

  • Varanlega og trygga viðlegu og hafnaraðstaða fyrir varðskip og báta LHG.
  • Geymsluaðstöðu fyrir varahluti og útgerðartengdan búnað LHG.
  • Góða viðhalds- og viðgerðaraðstaða fyrir varðskipin.
  • Tengsl og nálægð við slipp sem tryggir aðgengi að góðri viðhaldsþjónustu.
  • Aðstöðu til að bjóða upp á köfunarnámskeið og undirbúning köfunaræfinga.
  • Aðstöðu til geymslu á köfunarafþrýstitanki, mengunarvarnarbúnaði, léttabátum og öðrum öryggis- og björgunarbúnaði.
  • Æfinga- og þjálfunaraðstöðu fyrir sjóbjörgunarsveitir SL, lögreglu, slökkvilið og LHG.

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra

„Það er álitlegur kostur að útvega Landhelgisgæslunni aðstöðu fyrir varðskip á Suðurnesjum. Forsendan fyrir því eru þær úrbætur sem ráðast þarf í á hafnaraðstöðunni og ég er bjartsýnn á að þær framkvæmdir gangi eftir í góðu samstarfi allra aðila.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta