Samráðsfundur með forstjórum heilbrigðisstofnana
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hélt í liðinni viku reglubundinn samráðsfund með forstjórum heilbrigðisstofnana ásamt starfsfólki ráðuneytisins. Slíkir fundir eru haldnir ársfjórðungslega og er markmið þeirra að ræða helstu áskoranir í heilbrigðisþjónustu á hverjum tíma, efla samstarf stofnananna og deila þekkingu og reynslu. Á fundinum var sérstaklega rætt um heilbrigðisþjónustu við flóttafólk, bætta og skilvirkari þjónustu með aukinni hagnýtingu heilbrigðis- og velferðartækni og um áherslur í mannauðsmálum í kjölfar langvarandi vinnuálags í heimsfaraldri.
Heilbrigðisráðherra opnaði fundinn með því að ræða um hlutverk ráðuneytisins og hvernig hann sér fyrir sér samspilið milli þess og heilbrigðisstofnananna. Hann vísað til þess að ráðuneytið eigi að vera stofnunum bakhjarl og stuðningur samhliða því að veita aðhald og leiðsögn með stefnumótunarhlutverki sínu. Hann lagði áherslu á samstöðu, samvinnu og sterka liðsheild sem væri forsenda árangurs. Það hefði sýnt sig í heimsfaraldrinum þar sem stofnanirnar og starfsfólk þeirra hefðu unnið þrekvirki við erfiðar aðstæður. Íslensk heilbrigðisþjónusta væri í alþjóðlegum samanburði mjög góð og heilbrigðisstarfsfólk hefði ríka ástæðu til að vera stolt af störfum sínum.
Fram kom á fundinum að heilbrigðiskerfið byggi að fenginni reynslu í Covid-19 faraldrinum varðandi skipulag heilbrigðisþjónustu við móttöku flóttafólks. Það sem af er ári hafa yfir 1300 einstaklingar sótt um alþjóðlega vernd hér á landi, þar af um 850 frá Úkraínu. Áhersla hefur verið lögð á að samræma ferla og einfalda og straumlínulaga þjónustuna þannig að hún verði sem aðgengilegust og skilvirkust, meðal annars með því að koma á fót sérstakri móttökumiðstöð sem opnuð var í fyrrum húsnæði Dómus 4. apríl sl.
Fundarmenn voru sammála um að mikil tækifæri felist í stafrænum lausnum í heilbrigðisþjónustu eins og sannaðist í viðbrögðum við Covid-19. Umfang þeirrar þjónustu var gríðarlegt og hefði verið nær ómögulegt að leysa af hendi ef ekki hefðu verið nýttar stafrænar lausnir við skráningar, boðun í bólusetningar, samskipti við sjúklinga og útgáfu vottorða. Ljóst sé að margvísleg tækifæri séu fyrir hendi í heilbrigðisþjónustunni til að yfirfæra sambærilegar lausnir til að leysa verkefni, bæta þjónustu og auka skilvirkni.
Nýlega var ráðstafað um hálfum milljarði króna af fjárlögum síðasta árs til að innleiða og þróa heilbrigðis- og velferðartækni í auknum mæli í heilbrigðisþjónustu. Fjármunirnir skiptast á milli heilbrigðisstofnana í öllum heilbrigðisumdæmum og á fundinum skiptust forstjórarnir á upplýsingum um helstu verkefni hvað þetta varðar sem verið er að innleiða. Þar má nefna skráningarkerfið Smásögu, lyfjaskammtara í heimaþjónustu og fleira.
Töluverðum hluta fundarins var varið í umræður um mönnun heilbrigðisþjónustunnar og mannauðsmál. Langvarandi álag á heilbrigðisstarfsfólk vegna Covid-19 hefur tekið sinn toll sem hefur m.a. birst í aukinni starfsmannaveltu sem eykur á mönnunarvandann. Um þetta var rætt og um nauðsyn þess að leggja rækt við mannauðsmál á stofnununum með áherslu á að bæta starfsumhverfi og starfsaðstæður og stuðla að vellíðan heilbrigðisstarfsfólks í vinnunni.