Forsætisráðherra á leiðtogafundi Norðurlandanna og Indlands
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók í dag þátt í leiðtogafundi Norðurlandanna og Indlands sem fram fór í Kaupmannahöfn. Þetta er í annað sinn sem forsætisráðherrar ríkjanna hittast en fyrri fundur var í Stokkhólmi árið 2018. Fundinn sátu allir forsætisráðherrar Norðurlandanna auk Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands.
Meðal umræðuefna á fundinum var hin alvarlega staða sem uppi er á alþjóðavettvangi vegna innrásarstríðs Rússlands í Úkraínu, Covid-19 heimsfaraldurinn, aðgerðir í loftslagsmálum og mikilvægi fjölþjóðasamstarfs þegar kemur að áskorunum í alþjóðakerfinu. Þá ræddu forsætisráðherrarnir um samvinnu á sviði nýsköpunar, stafrænnar væðingar og í málefnum hafsins. Indland er stærsta lýðræðisríki veraldar og kom fram gagnkvæmur áhugi á áframhaldandi virku stjórnmála- og viðskiptasamstarfi.
Forsætisráðherrarnir sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu að fundinum loknum.
Forsætisráðherra átti einnig tvíhliða fund með forsætisráðherra Indlands. Þar var rætt um 50 ára afmæli stjórnmálasambands ríkjanna sem minnst er í ár en til þess var stofnað árið 1972. Ísland opnaði sendiráð í Nýju-Delí árið 2006 og Indland opnaði sendiráð í Reykjavík tveimur árum síðar. Síðan þá hefur markvisst verið unnið að því að efla samskipti ríkjanna þar sem áherslusviðin eru endurnýjanleg orka, einkum jarðvarmi, samvinna á sviði sjávarútvegsmála, og ferðaþjónusta.
Ráðherrarnir ræddu sömuleiðis jafnréttismál, baráttuna gegn loftslagsvánni og möguleika á samstarfi um grænar tæknilausir. Forsætisráðherra Indlands fagnaði vinsamlegum samskiptum ríkjanna og lýsti áhuga á auknu samstarfi á sviði norðurslóðarannsókna en Indland er eitt áheyrnarríkja að Norðurskautsráðinu.
Þá átti forsætisráðherra einnig tvíhliða fund með Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. Þær ræddu stöðuna í alþjóðamálum og tvíhliða samstarf landanna sem er mjög farsælt.