Hoppa yfir valmynd
6. maí 2022 Forsætisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Innviðaráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ríkisstjórnin samþykkir mótvægisaðgerðir vegna verðbólgu

Ráðist verður í mótvægisaðgerðir til að draga úr áhrifum verðbólgu á lífskjör viðkvæmustu hópa samfélagsins. Tillaga þess efnis frá forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, innviðaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og menningar- og viðskiptaráðherra var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

Horft verður til sértækra aðgerða með hækkun bóta almannatrygginga, sérstökum barnabótaauka til þeirra sem eiga rétt á tekjutengdum barnabótum og hækkun húsnæðisbóta.

  • Bætur almannatrygginga hækka um 3% frá 1. júní.
  • Húsnæðisbætur hækka um 10% frá 1. júní.
  • Greiddur verður sérstakur barnabótaauki til þeirra sem fá tekjutengdar barnabætur að fjárhæð 20.000 kr. með hverju barni. Frumvarp þess efnis verður lagt fram í mánuðinum.

Verðbólga mældist 7,2% á ársgrundvelli í apríl sl. og hefur Seðlabankinn brugðist við með hækkun vaxta. Þótt fjárhagsstaða heimila sé almennt sterk og kaupmáttur sé enn að aukast eru heimili í ólíkri stöðu til að takast á við vaxta- og verðlagshækkanir. Þess vegna er sérstaklega horft til fyrrnefndra hópa í mótvægisaðgerðunum eftir ítarlega greiningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

 

Lífeyrisþegar - bætur almannatrygginga

Bætur ellilífeyrisþega hækkuðu um 4,6% um síðustu áramót í samræmi við forsendur fjárlaga yfirstandandi árs og bætur örorkulífeyrisþega um 5,6%. Í ljósi verðlagsþróunar verða bætur hækkaðar um 3% frá 1. júní og hækka framfærsluviðmið örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega vegna sérstakrar uppbótar einnig um 3% og nýtist því hækkunin mest þeim sem lægstar hafa tekjurnar. Kostnaður við þessa hækkun bóta almannatrygginga er áætlaður 3 til 3,5 ma.kr. á árinu og 5 til 5,5 ma.kr. á ársgrundvelli. Varanleg útgjaldaaukning vegna hækkunar bóta almannatrygginga á árinu nemur því hátt í 14 ma.kr.  

Leigjendur - húsnæðisbætur

Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta hækka um 10% frá 1. júní og hækka frítekjumörk húsnæðisbóta um 3% til samræmis við hækkun bóta almannatrygginga. Kostnaður við hækkunina nemur um 600 m.kr. á yfirstandandi ári og um 1 ma.kr. á ársgrundvelli. Samkvæmt mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er tæplega helmingur heimila á leigumarkaði í húsnæðisbótakerfinu. Áætlað er að a.m.k. 70% þeirra séu með vísitölutengda leigusamninga.

Barnafjölskyldur – barnabætur

Greiddur verður út sérstakur barnabótaauki að fjárhæð 20.000 kr. með hverju barni í þeim tilvikum þar sem ákvarðaðar eru tekjutengdar barnabætur. Stefnt er að því að hann verði greiddur út í lok júní en kostnaður er áætlaður um 1,1 ma.kr. Endurskoðun á barnabótakerfinu stendur yfir með það að markmiði að sníða af ýmsa vankanta kerfisins þannig að meginmarkmið kerfisins náist enn betur, þ.e. að draga úr fátækt barna og styðja foreldra, sérstaklega í tekjulægri hópum.

Ríkisstjórnin telur brýnt að koma til móts við þann hóp sem hækkandi verðbólga mun bitna verst á og það strax. Ríkisstjórnin mun engu að síður leggja áherslu á aðhaldssöm ríkisfjármál til að styðja við peningastefnu Seðlabankans.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta