Eflir félagsstarf fatlaðs fólks í sumar
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur undirritað samning við Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra um sérstök sumarverkefni á vegum Styrktarfélagsins. Með samningnum leggur félags- og vinnumarkaðsráðuneytið alls til 56,5 milljónir króna sem nýtast til að styðja við og efla orlofsþjónustu félagsins í sumar. Markmiðið er að auka og styrkja félagslega samveru fullorðinna fatlaðra einstaklinga í kjölfar langvarandi einangrunar vegna Covid-19 en viðkvæmir hópar urðu fyrir meiri einangrun en fólk almennt.
Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra mun bjóða fötluðu fólki á aldrinum 21-35 ára upp á sumardvöl þar sem boðið verður upp á ýmsa afþreyingu og samveru. Þá mun þeim einnig vera boðið upp á fjölbreytt félagsstarf á höfuðborgarsvæðinu í sumar þar sem þeim gefst tækifæri á að kynnast öðrum fólki í skemmtilegu umhverfi.
Fjöldi manns mun starfa í sumarverkefnum Styrktarfélagsins í sumar og er mikil ánægja með samstarfið frá báðum aðilum. Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur áður styrkt Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra til að skipuleggja afþreyingu fyrir fötluð börn og ungmenni sem viðbrögð við félagslegum áhrifum Covid-19.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags-og vinnumarkaðsráðherra: „Covid-19 faraldurinn hefur reynt mikið á fatlað fólk og því er sérstaklega ánægjulegt að styrkja skemmtilegt og fjölbreytt félagsstarf fyrir þau í sumar. Það hefur verið frábært að fá að kynnast því góða starfi sem Styrktarfélagið hefur unnið og ég hlakka til að fylgjast með öllu fjörinu í sumar.“