Fyrsta skóflustungan að nýju hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ
Heilbrigðisráðherra, formaður félags eldri borgara á Suðurnesjum og formaður ungmennaráðs Reykjanesbæjar tóku fyrstu skóflustunguna að nýju hjúkrunarheimili á Nesvöllum í Reykjanesbæ sl. föstudag. Á nýja heimilinu verður aðstaða fyrir 60 íbúa. Húsið verður 3.900 fermetrar að stærð og samtengt nýlegu 60 rýma hjúkrunarheimili sem fyrir er á Nesvöllum. Áætlað er að heimilið verði tilbúið til notkunar í lok árs 2024.
Þegar nýja heimilið er tilbúið verður hjúkrunarheimilinu Hlévangi lokað. Þar búa nú 30 íbúar en aðstæður þar eru ekki í samræmi við nútímakröfur sem gerðar eru til húsnæðis og aðbúnaðar á hjúkrunarheimilum. Hjúkrunarrýmum fjölgar því í heildina um 30 í Reykjanesbæ.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir byggingu nýja hjúkrunarheimilisins lið í kraftmikilli uppbyggingu hjúkrunarheimila á landsvísu. „Við þurfum jafnframt að mæta áskorunum tengdum öldrun þjóðarinnar á fjölbreyttan hátt. Samhliða uppbyggingu hjúkrunarrýma munum við leggja sérstaka áherslu á lýðheilsu, forvarnir og heilsueflandi aðgerðir ásamt því að efla og þróa þjónustu og stuðning við eldra fólk í heimahúsum“ segir ráðherra.
Nýmæli í hönnun
Í hönnunarferli hjúkrunarheimilisins var ákveðið að víkja frá hefðbundnum viðmiðum á einkabaðherbergjum íbúanna þar sem komið verður fyrir rafdrifnum salernum og vöskum. Markmiðið er að gera íbúana meira sjálfbjarga og auðvelda þeim salernisferðir og persónulegt hreinlæti. Í því felast mikilvæg lífsgæði og þessi lausn er til þess fallin að styðja við sjálfstæði fólks og sjálfsvirðingu.
Áætlaður kostnaður við nýbygginguna eru tæpir 2,6 milljarðar króna. Ríkissjóður fjármagnar 85% á móti 15% bæjarfélagsins sem leggur jafnframt til lóðina undir hjúkrunarheimilið.