Ísland hækkar um fimm sæti á Regnbogakorti ILGA Europe og er komið í topp tíu
Ísland hækkar um fimm sæti á milli ára á Regnbogakorti ILGA Europe. Ísland er nú komið í 9. sæti en var í 14. sæti í fyrra (2021).
Evrópusamtök hinsegin fólks (ILGA-Europe) birta Regnbogakortið árlega í kringum alþjóðlegan baráttudag hinsegin fólks sem er 17. maí. Kortið sýnir á myndrænan hátt lagalega stöðu og réttindi hinsegin fólks í ríkjum Evrópu.
Lög um kynrænt sjálfræði sem sett voru hér á landi 2019 hafa komið til móts við ný og breytt viðhorf til opinberrar skráningar kyns og stuðlað að réttarbótum fyrir trans og intersex fólk með því að staðfesta rétt einstaklinga til að breyta kynskráningu sinni í samræmi við eigin upplifun og án þess að þurfa að sæta skilyrðum um sjúkdómsgreiningu og læknismeðferð. Með breytingum á barnalögum hefur enn fremur verið bættur réttur trans foreldra þegar kemur að foreldraskráningu.
Ísland stefnir enn hærra og hefur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra nú lagt fram þingsályktunartillögu um aðgerðaráætlun í málefnum hinsegin fólks. Verði þingsályktunin samþykkt mun hún leiða til enn frekari réttarbóta fyrir hinsegin fólk. Slík aðgerðaráætlun, auk verkefna í aðgerðaráætluninni munu væntanlega þoka Íslandi enn hærra á Regnbogakorti ILGA Europe.
Danmörk og Ísland eru hástökkvarar ársins á Norðurlöndunum og er Danmörk nú í öðru sæti á kortinu en var í því níunda í fyrra. Svíþjóð og Noregur hafa hækkað um eitt sæti en Finnland fellur niður um sex sæti og er nú í 12 sæti á listanum.
Af 49 þjóðum trónir Malta áfram í efsta sæti á listanum og Aserbaísjan er áfram í neðsta sæti.