Hoppa yfir valmynd
16. maí 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Forsætisráðuneytið, Utanríkisráðuneytið, Dómsmálaráðuneytið

Ísland tekur sérstaklega á móti fjölskyldum ungra afganskra flóttamanna - áhersla á einstæðar mæður

Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt tillögu Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra, um að fallast á útfærslu flóttamannanefndar þess efnis að Ísland taki sérstaklega á móti fjölskyldum ungra afganskra flóttamanna sem fengu vernd á Íslandi eftir 18 ára aldur. Ráðherra fól flóttamannanefnd að útfæra tillögur um sérstaka móttöku þessa hóps hingað til lands í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnar fyrr í vetur.

Í aðgerðum stjórnvalda verður horft sérstaklega til fjölskyldusameiningar við einstaklinga sem fengu alþjóðlega vernd hér á landi eftir 18 ára aldur en voru fæddir árið 2000 eða síðar, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Um er að ræða ungt fólk sem hefur ekki átt möguleika á að sækja um fjölskyldusameiningu vegna aldurs en einstaklingar sem eru yngri en 18 ára þegar þeir fá vernd geta sótt um fjölskyldusameiningu við bæði foreldra sína, og systkini sem eru yngri en 18 ára.

Sérstaklega verður horft til einstæðra mæðra en einnig áhersla á fjölskyldur þar sem fjölskyldufaðirinn reiðir sig á afkomu annarra í fjölskyldunni og umönnun vegna fötlunar sinnar. Enn fremur er lagt til að fjölskyldusameiningar nái til fjölskyldna sem dvelja í nágrannaríkjum við Afganistan eins og á við um almennar fjölskyldusameiningar.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta