Hoppa yfir valmynd
17. maí 2022 Utanríkisráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ísland verður gestgjafi IDAHOT+ Forum 2023

Ísland tekur við IDAHOT fánanum af fulltrúum Breta og Kýpur við hátíðlega athöfn - mynd

Árlegur samráðsfundur IDAHOT+ Forum verður haldinn á Íslandi í maí 2023 í tengslum við formennsku Íslands í Evrópuráðinu. Þetta verður í tíunda sinn sem efnt er til þessa samráðs sem sameinar evrópskar ríkisstjórnir, aðgerðasinna, borgaralegt samfélag og aðra hagsmunaaðila til að meta framgang réttinda hinsegin fólks í álfunni. Fundurinn er haldinn árlega í kringum alþjóðadag gegn fordómum gagnvart hinsegin fólki (IDAHOT) þann 17. maí.

Regnbogakort Evrópusamtaka hinsegin fólks (e. ILGA Europe) er jafnframt birt á IDAHOT+ fundinum en kortið sýnir á myndrænan hátt lagalega stöðu og réttindi hinsegin fólks í ríkjum Evrópu. Ísland hefur hækkað um fimm sæti á milli ára og er nú í níunda sæti en var í 14. sæti í fyrra.

Samráðsfundurinn er skipulagður af evrópsku samhæfingarneti aðila sem starfa að málefnum hinsegin fólks í Evrópu (EFPN) í samstarfi við Evrópuráðið og formennskuríki hverju sinni. Ísland tók við formennskukeflinu af Kýpur og Bretlandi við hátíðlega athöfn í Limassol á Kýpur í síðustu viku. Forsætisráðuneytið, sem ber ábyrgð á jafnréttis – og mannréttindamálum fer fyrir skipulagi samráðsfundarins í maí 2023.

Ísland tekur við formennsku í Evrópuráðinu í sex mánuði frá nóvember á þessu ári. Meðan á formennskunni stendur leiðir Ísland starf ráðsins, hefur málefnalegt frumkvæði í starfseminni og er í fyrirsvari fyrir Evrópuráðið gagnvart öðrum alþjóðastofnunum.

Evrópuráðið var stofnað 5. maí 1949 í kjölfar hörmunga síðari heimstyrjaldarinnar. Ísland gerðist aðili að Evrópuráðinu 7. mars 1950 og hefur einu sinni áður gegn formennsku í ráðinu.Evrópuráðið hefur það að markmiði að efla samvinnu 46 aðildarríkja stofnunarinnar og standa vörð um mannréttindi, lýðræðislega stjórnarhætti og réttarríkið.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta