Hoppa yfir valmynd
27. maí 2022 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Breytingar á barnaverndarlögum koma til framkvæmda 1. janúar 2023 – umboð barnaverndarnefnda framlengt

Miklar breytingar á barnaverndarlögum, sem varða barnaverndarþjónustur og umdæmisráð barnaverndar og voru samþykktar á Alþingi síðasta sumar, koma til framkvæmda um næstu áramót. Á sama tíma verða barnaverndarnefndir lagðar niður.

Áður hafði verið ákveðið að þessar breytingar kæmu til framkvæmda í kjölfar sveitarstjórnarkosninga á þessu ári. Eftir beiðni frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga lagði mennta- og barnamálaráðherra fram frumvarp þar sem lagt var til að breytingunum yrði frestað til 1. janúar 2023. Frumvarpið var samþykkt sem lög frá Alþingi þann 29. apríl 2022.

Í lögunum felst að umboð barnaverndarnefnda framlengist til 1. janúar 2023. Ef ekki er unnt að framlengja umboð barnaverndarnefnda kjósa sveitarstjórnir tímabundna barnaverndarnefnd sem starfar til 1. janúar 2023. Til að styðja við sveitarfélög í þessu verkefni hefur Barna- og fjölskyldustofa gefið út leiðbeiningar til sveitarstjóra um skipan barnaverndarnefnda eftir sveitarstjórnarkosningar 14. maí 2022.

Þótt ný lög gefi rýmri tíma til undirbúnings nýrra barnaverndarþjónusta og umdæmisráða barnaverndar er lögð áhersla á að sveitarfélög nýti þann tíma vel. Gert er ráð fyrir því að stofnun barnaverndarþjónusta og umdæmisráða barnaverndar verði lokið 1. október 2022. Sveitarfélög fá ráðrúm til að ljúka við mönnun umdæmisráða og aðlaga verkferla að starfsemi nýju eininganna áður en þær taka til starfa 1. janúar 2023.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta