Ráðherrar fengu skýrslu barnaþings afhenta
Sex börn úr ráðgjafarhópi umboðsmanns barna ásamt Salvöru Nordal, umboðsmanni barna, afhentu ráðherrum skýrslu barnaþings 2022 eftir fund ríkisstjórnarinnar í dag. Í skýrslunni eru helstu niðurstöður barnaþingsins sem haldið var í mars sl.
Barnaþing er vettvangur sem veitir börnum tækifæri til að hafa áhrif á samfélagið og ákvarðanatöku stjórnvalda og því mikilvægt skref í úrvinnslu þingsins að afhenda ráðherrum ríkisstjórnarinnar niðurstöður barnaþings.
Á þinginu unnu barnaþingmenn í sameiningu að því að finna nýjar leiðir og lausnir á fjölbreyttum viðfangsefnum. Í ár völdu barnaþingmenn að einblína á mannréttindi, menntun og umhverfis- og loftslagsmál.
Í skýrslunni kemur m.a. fram að barnaþingmenn lögðu til að börn fái kosningarétt við 16 ára aldur. Barnaþingmenn ítrekuðu einnig mikilvægi þess að útrýma fordómum til að tryggja að allir fái að vera eins og þeir sjálfir kjósa. Þá er lagt til að kennsla um kynheilbrigði verði aukin og að öllum verði tryggt aðgengi að gjaldfrjálsri heilbrigðisþjónustu um leið og þörf er fyrir hana.
Ráðherrar tóku við skýrslunni og sagði forsætisráðherra við þetta tilefni að efnt yrði til sérstakrar umræðu um skýrslu barnaþingsins á Alþingi og þannig tryggt að niðurstöður þingsins kæmust vel til skila enda skipti börn máli og raddir þeirra þurfi að heyrast.