Hoppa yfir valmynd
30. maí 2022 Utanríkisráðuneytið

Aukinn stuðningur við frjálsa fjölmiðlun í þróunarríkjum

Stuðningur Norðurlanda við starfsemi UNESCO var helsta umfjöllunarefni fundar norrænna þróunarsamvinnuráðherra með framkvæmdastjóra stofnunarinnar í dag. Utanríkisráðherra tilkynnti á fundinum um aukið framlag Íslands til uppbyggingar frjálsrar fjölmiðlunar í þróunarríkjum.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra tók þátt í fundinum fyrir Íslands hönd sem norrænu þróunarsamvinnuráðherrarnir áttu með Audrey Azoulay, framkvæmdastjóra Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Þar var rætt um stuðning Norðurlanda við starfsemi UNESCO ekki hvað síst í ljósi þeirra áskorana sem starf stofnunarinnar stendur frammi fyrir í kjölfar heimsfaraldurs COVID-19 og stríðsátakanna í Úkraínu, m.a. á sviði menntamála, jafnréttis- og mannréttindamála og tjáninga- og fjölmiðlafrelsis. Utanríkisráðherra tilkynnti í því samhengi um að framlög íslenskra stjórnvalda vegna ársins 2022 í sérstakan sjóð UNESCO um uppbyggingu frjálsrar fjölmiðlunar í þróunarríkjum (IPDC) verði aukin um átta milljónir króna á árinu og verði þá samtals sextán milljónir.

Ísland gerði rammasamning við UNESCO vegna framlaga til þróunarverkefna árið 2019 og gildir hann út árið 2023. Samningurinn kveður á um stuðning við þrjú verkefni á vegum stofnunarinnar sem miða að því að styrkja getu fátækra ríkja við innleiðingu umbóta á sviði menntamála (CapED - Capacity Development for Education Programme), framlag til sjóðs sem stuðlar að tjáningarfrelsi og öryggi blaðamanna í þróunarlöndum (Multi-Donor Programme on Freedom of Expression and Safety of Journalists) og verkefni um þróun frjálsrar fjölmiðlunar í þróunarlöndum (IPDC - International Programme for the Development of Communication).

Norðurlönd og UNESCO eiga árlegt samráð um þróunarsamvinnutengt starf stofnunarinnar en Norðurlöndin eru einn virkasti ríkjahópurinn innan UNESCO og meðal stærstu framlagsríkja. Ísland tók sæti í framkvæmdastjórn UNESCO í nóvember á síðasta ári og sinnir samhæfingu á meðal Norðurlandanna um málefni stofnunarinnar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta