Matvælaráðaherra skipar starfshóp vegna smitvarna og sjúkdóma í laxeldi
Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, hefur ákveðið að skipa starfshóp til að skoða smitvarnir og sjúkdóma í fiskeldi og vinna að tillögum um breytingar ef þörf þykir. Hópnum verður falið að yfirfara lög og reglugerðir um laxeldi og framkvæmd á þeim.
Fulltrúi matvælaráðuneytisins mun leiða vinnunna en ráðherra mun óska eftir tilnefningum frá Matvælastofnun, Hafrannsóknastofnun, Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum og mögulega óháðum erlendum sérfræðingi.
Lögð er áhersla á að hópurinn skoði meðal annars hvernig laxeldi fer fram í Færeyjum en þar eru fyrirtæki með hvert svæði einangrað og aðeins ein kynslóð laxa alin upp hverju sinni. Einnig eru miklar takmarkanir hafðar á samgangi á milli eldissvæða í Færeyjum.
Einnig þykir ástæða til að athuga mögulegan ávinning af því að koma á bólusetningarskyldu gagnvart ISA-veirunni sem er orsök blóðþorra.
„Nú hefur blóðþorri verið staðfestur í öllum kvíum í Reyðarfirði og grunur er á smiti víðar. Það verður að grípa til allra hugsanlegra leiða til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Náttúra Íslands er okkar fjöregg og okkar skylda að vernda hana sem best við getum“ segir Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra.