Hoppa yfir valmynd
2. júní 2022 Dómsmálaráðuneytið

Ráðherra fyrir allsherjar- og menntamálanefnd vegna útlendingamála

Dómsmálaráðherra kom fyrir allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis á fimmtudag og fór yfir málefni útlendinga sem hér eru í ólögmætri dvöl. Ráðherra svaraði þeim spurningum sem nefndarmenn höfðu þegar lagt fram og kynnti tölfræðigögn og upplýsingar um málefnið. Á fundinum kom fram að þann 1. júní voru þeir útlendingar sem dvelja hér í ólögmætri dvöl og ber að yfirgefa landið, samkvæmt ákvörðun stjórnvalda, 169 talsins. Flestra bíður svokölluð frávísun sem þýðir að viðkomandi er heimilt að koma aftur til landsins en minni hluti hópsins er í svokallaðri brottvísun en það þýðir að viðkomandi sætir endurkomubanni á Schengen-svæðinu í mismunandi langan tíma.

169 í ólöglegri dvöl

Af þessum 169 tilheyra 53 einstaklingar fjölskyldum en 116 ekki. Af heildartölunni eru jafnframt 129 karlar og 40 konur. Þá eru 22 börn undir 18 ára aldri en fullorðnir eru 147. Öll börn á skólaskyldualdri ganga í skóla á meðan þau eru á landinu.

Af þessum 169 einstaklingum eru 98 á leið til ríkja sem erfitt hefur reynst að senda til svo sem vegna þeirra skilyrða sem móttökuríki gera og vegna erfiðleika við að fá útgefin ferðaskilríki.  Auk þess eru þó nokkur lönd sem ekki er fylgt til að þeirra beiðni vegna nálægðar og áhrifa frá stríðinu í Úkraínu. Þau lönd sem falla hér undir eru Alsír, Belarús, Eþíópía, Gambía, Gínea, Írak, Kólumbía, Líbanon, Marokkó, Nígería, Pakistan, Pólland, Rúmenía, Rússland, Súdan, Tékkland, Túnis, Ungverjaland og Venesúela. Vegna þessa hefur ríkislögreglustjóri ekki getað fylgt fólkinu til heima- eða móttökulands eins og sakir standa.

Fargjalda- og enduraðlögunarstyrkir

Þrátt fyrir að dvöl viðkomandi útlendinga teljist ólögleg nýtur viðkomandi enn þjónustu hér á landi líkt og umsækjendur um alþjóðlega vernd. Margir þeirra hafa það hins vegar í sínu valdi að hverfa af landi brott á eigin vegum og fá þá styrk til greiðslu fargjalds. Í þeim tilvikum þegar útlendingur hefur fengið synjun í efnismeðferð við umsókn um alþjóðlega vernd og fengið frest til að yfirgefa landið sjálfur þá stendur honum jafnframt til boða enduraðlögunarstyrkur sem getur numið allt að 3.000 evrum á einstakling. Styrkirnir eiga að stuðla að árangursríkri enduraðlögun í heimaríki og styðja viðkomandi við að koma undir sig fótunum á nýjan leik.

Unnið að endursendingu hjá 71 um þessar mundir

Eftir stendur þá 71 af þessum 169 einstaklingum sem er í ólögmætri dvöl og á að fara til annarra landa en áður greinir. Stoðdeild ríkislögreglustjóra vinnur að því um þessar mundir að hafa samband við viðkomandi og undirbúa flutning úr landi. Fari fólkið ekki sjálfviljugt sér stoðdeild ríkislögreglustjóra um að fylgja því úr landi. Börn í þessari stöðu eru færri en 5 talsins. 36 fullorðnir eiga að fara til Grikklands, 7 til Albaníu og 6 til Ítalíu. 22 eiga að fara til annarra landa en nákvæmari tölur eru ekki gefnar vegna persónuverndarsjónarmiða.

1.514 fengið brott- eða frávísun frá 2017

Undanfarin 6 ár hafa 1.514 einstaklingar fengið brottvísun eða frávísun frá landinu. Fjöldi þeirra, sem stoðdeild hefur átt milligöngu um að flytja úr landi, hvort heldur sem fólk fer sjálft eða er fylgt, er sýndur í meðfylgjandi töflu.

 Á tímabilinu 2017 til maí 2022 hafa um 3.360 einstaklingar fengið vernd eða viðbótarvernd sem flóttamenn, fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða , fengið vernd í boði stjórnvalda eða komið til landsins sem aðstandendur flóttamanna.

    Ár      Fjöldi
    2017      534
    2018      304
    2019      319
    2020      137
    2021      194
    2022      36*

 

 

Jón Gunnarsson, dómsmálaráðherra:
„Markmið mitt hefur verið að sjá til þess að leyst sé úr þessu viðkvæma verkefni eins vel og hægt er með tilliti til íslenskra laga og reglna, alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og hagsmuna þeirra einstaklinga sem hér eiga undir. Í apríl fór ég þess á leit við Alþingi að umboðsmanni Alþingis verði falið eftirlit með framkvæmd brottvísana og frávísana“.

Nánari upplýsingar um alþjóðleg verndarmál, umsóknir og afgreiðslur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta