Utanríkisráðherra Namibíu í heimsókn á Íslandi
Netumbo Nandi-Ndaitwah aðstoðarforsætisráðherra og utanríkisráðherra Namibíu er í heimsókn hér á landi ásamt sendinefnd. Hún átti fundi í dag með utanríkisráðherra, forsætisráðherra þar sem svonefnt Samherjamál var meðal annars til umræðu. Síðdegis átti hún svo fund með aðstoðarmanni ráðherra og starfsfólki í dómsmálaráðuneytinu.
Á fundi þeirra Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra voru samskipti ríkjanna, fæðuöryggi og staða og horfur í heimsmálum meðal annars til umræðu. Ráðherrarnir ræddu líka Samherjamálið sem er til rannsóknar í báðum löndum. „Ég áréttaði á fundinum að þetta mál væri eðlilegum farvegi hjá lögreglu og saksóknurum beggja ríkja og að íslensk stjórnvöld tækju því af mikilli alvöru og legðu áherslu á góða samvinnu við namibísk stjórnvöld, hér eftir sem hingað til. Þetta var jákvæður og uppbyggilegur fundur og gagnlegt að heyra sjónarmið Nandi-Ndaitwah,“ segir Þórdís Kolbrún.
Í morgun áttu þær Nandi-Ndaitwah og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra stuttan fund þar sem Samherjamálið var til umfjöllunar.
Þá heimsótti namibíski ráðherrann einnig Landgræðsluskóla GRÓ að Keldnaholti sem er einn fjögurra skóla sem reknir eru af GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, undir hatti Mennta- vísinda og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Fulltrúar skólanna kynntu starfsemina og ráðherrann ávarpaði nemendur Landgræðsluskólans sem margir hverjir eru frá Afríkuríkjum. Jafnframt skoðaði Nandi-Ndaitwah Hellisheiðarvirkjun og jarðhitasýningu Orku náttúrunnar sem veitir innsýn í virkjun og nýtingu jarðvarma á Íslandi. Loks ráðherrann sér starfsemi Carbfix sem hefur síðustu tíu árin bundið koldíoxíð í berglögum á Hellisheiði.
Namibía var samstarfsríki Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu um tuttugu ára skeið. Flest voru verkefnin tengd sjávarútvegi en einnig var unnið að mörgum félagslegum verkefnum og stuðningi við minnihlutahópa eins og heyrnarlausa og þjóðflokkana sem kenndir eru við Owahimba og San.
Netumbo Nandi-Ndaitwah hefur verið aðstoðarforsætisráðherra frá árinu 2015 og fyrst kvenna til að gegna því embætti. Hún hefur verið utanríkisráðherra frá 2012.