Hoppa yfir valmynd
9. júní 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fjárfestingartækifæri kynnt á orkuráðstefnu í Kanada

The Global Energy Show ráðstefnan stendur nú yfir í Calgary í Kanada. Ráðstefnan er sú stærsta sinnar tegundar í Norður-Ameríku og koma þar saman frumkvöðlar og sérfræðingar í orkugeiranum, fjárfestar, fulltrúar orkufyrirtækja og fleiri áhugasöm.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hélt erindi á ráðstefnunni undir fyrirsögninni Sustainable Utilization of Natural Resources: The Icelandic Example. Þar beindi ráðherra m.a. athyglinni að frumkvöðlastarfi í sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa á Íslandi og hvernig hugvitið spilar lykilhlutverk í að Ísland uppfylli markmið um kolefnishlutleysi árið 2040.

Öflugir innviðir skapa tækifæri til framtíðar

Ísland stendur framarlega í framleiðslu og nýtingu grænna orkugjafa. Allt frá því að fyrsta vatnsaflsvirkjunin hóf raforkuframleiðslu árið 1904 hafa öflugir innviðir byggst upp samhliða aukinni nýtingu endurnýjanlegrar orku. Hægt og rólega hefur byggst upp hugverkaiðnaður í kringum orkuframleiðslu og hefur áhugi á fjárfestingu í orkutengdnum verkefnum t.d. gagnaverum, rafeldsneyti, vetni og kolefnisförgun sennilega aldrei verið meiri. Mikilvægt er að vel takist til við að koma þessum verkefnum á fót enda munu þau skipta sköpum þegar kemur að því að Ísland uppfylli markmið um kolefnishlutleysi árið 2040.

Hvetjandi umhverfi nýsköpunar í Kanada

Auk þess að kynna orkusjálfbærni Íslands, nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og sóknartækifæri landsins í orkumálum á Global Energy Show ráðstefnunni hefur ráðherra einnig sótt ýmsa viðburði og fundi í heimsókn sinni til Kanada.

Kanada hefur á síðustu árum getið sér gott orðspor þegar kemur að grósku í nýsköpun. Vel hefur tekist í landinu að skapa eftirsóknarvert umhverfi nýsköpunar þar sem fjölbreytt tækifæri og sterkir rannsóknarinnviðir laða að frumkvöðla og fjárfesta. Sem dæmi má nefna Calgary, þar sem ráðstefnan fer fram, hefur sett sér það markmið að verða fyrsta val um staðsetningu til að stofna og þróa tæknifyrirtæki. Aðgerðir sem stuðla að þessu markmiði miða að því að styrkja innviði, styðja við nýsköpun, byggja sterkt samfélag nýsköpunar, deila boðskapnum og mæla árangur.

Ísland og Kanada hafa lengi verið vinaþjóðir og átt í góðu sambandi. Spennandi verður því að fylgjast með framförum í umhverfi nýsköpunar þar í landi enda margt sem rímar við áherslur háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra þegar kemur að eflingu hugvits og nýsköpunar til nýrra lausna í orku- og loftslagsmálum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta