Hoppa yfir valmynd
9. júní 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Tækifæri í auknu norrænu samstarfi um þróun, nýsköpun og framleiðslu bóluefna

Niðurstöður norrænnar greiningarvinnu benda til þess að ýmis tækifæri geti falist í auknu samstarfi Norðurlanda á sviði nýsköpunar, þróunar og framleiðslu á bóluefnum. Ráðist var í verkefnið að frumkvæði Svía innan norrænu ráðherranefndarinnar um atvinnuþróun, þar sem heimsfaraldur Covid-19 hefur varpað ljósi á mikilvægi öflugs samstarfs Norðurlandaþjóðanna m.a. með samhæfingu aðgerða og viðbúnaði gegn skorti á hráefnum og aðföngum þegar vá stendur fyrir dyrum. Skýrsla með niðurstöðum greiningarinnar liggur nú fyrir.

Sænska ráðuneytisstofnunin Vinnova tók skýrsluna saman en hún byggir á greiningarvinnu sem hver Norðurlandaþjóð lét gera. Ráðgjafafyrirtækið Landás ehf. annaðist greininguna hér á landi samkvæmt samningi við stjórnvöld. Verkefnið fólst í því að skoða eftirtalda þætti;

  • Samlegðaráhrif og helstu tækifæri til samstarfs á sviði bóluefna, þ.m.t. í rannsóknum, þróun, nýsköpun, framleiðslu og dreifingu.
  • Helstu veikleikar í núverandi framleiðslu og dreifingu bóluefna á Norðurlöndum á tímum faraldurs og hvernig bregðast megi við þeim.
  • Hvernig norrænt samstarf gæti styrkt þátttöku landanna í verkefnum Evrópusambandsins á þessu sviði og öðru alþjóðlegu samstarfi.

 

Í fréttatilkynningu sænska viðskipta- og iðnaðarráðuneytisins um niðurstöður samnorrænu skýrslunnar er haft eftir Karl-Petter Thorwaldsson ráðherra að víðtækara samstarf Norðurlandaþjóðanna geti leitt til meiri viðbragðsgetu og sterkari samkeppnisstöðu þeirra á þessu sviði.

Sú greining á fyrirliggjandi getu þjóðanna á sviði lífvísinda er mikilvægur grunnur fyrir frekara mat á samnorrænu samstarfi, t.d. við klínískar prófanir, þróun tækni að baki mRNA-bóluefna og vegna mögulegrar þátttöku í verkefnum Evrópusambandsins á þessu sviði. Niðurstöðurnar benda til að það geti falist tækifæri í því fyrir Norðurlandaþjóðirnar að samræma getu sína, aðföng og innviði. Sérstaklega sé áhugavert að skoða nánar þætti sem tengjast fjármögnun, aðfangakeðjum, þróun þekkingar og klínískum rannsóknum.

Skýrslan hefur verið birt á ensku og sænsku. Auk norrænu skýrslunnar hefur ráðgjafafyrirtækið Landás tekið saman greiningu á stöðu færni og þekkingar hér á landi, hvað varðar rannsóknir, þróun og framleiðslu bóluefna og hugsanlegt framlag Íslendinga á alþjóða vettvangi á því sviði. Niðurstöður þeirrar greiningar munu einnig verða birtar á næstu dögum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta