Kynningarfundur - Nýtt skipulag í mennta- og barnamálaráðuneyti
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnir nýtt skipulag og áherslur í mennta- og barnamálaráðuneyti á Reykjavik Nordica Hilton fimmtudaginn 16. júní kl. 8:30 – 9:30. Fundurinn er öllum opinn og að auki verður honum streymt á vef mennta- og barnamálaráðuneytisins.
Nýtt skipulag mennta- og barnamálaráðuneytis tók gildi 2. júní síðastliðinn. Markmiðið með nýju skipulagi ráðuneytisins er að efla skilvirkni, teymisvinnu og árangur innan mennta- og barnamálaráðuneytisins þannig að sá mannauður og þekking sem þar er til staðar fái notið sín sem best, meðal annars við að tryggja að menntun, aðbúnaður og réttindi barna á Íslandi séu ávallt í fyrirrúmi og í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar um að tryggja farsæld allra barna.
Um er að ræða mikla breytingu á skipulagi ráðuneytisins og á kynningunni mun ráðherra fara yfir hvað þessar nýju áherslur þýða í starfi ráðuneytisins ásamt því að fjalla um fjögur ný embætti skrifstofustjóra sem nú eru laus til umsóknar.