Hoppa yfir valmynd
15. júní 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Jón Magnús leiðir viðbragðsteymi um bráðaþjónustu í landinu

Jón Magnús Kristjánsson - mynd

Jón Magnús Kristjánsson hefur verið ráðinn í tímabundið verkefni til að leiða viðbragðstreymi heilbrigðisráðuneytisins um bráðaþjónustu í landinu vegna alvarlegrar stöðu innan hennar. Jón Magnús er sérfræðingur í bráðalækningum og fyrrum yfirlæknir bráðamóttöku Landspítalans. Hann er auk þess með MBA gráðu frá háskólanum í Reykjavík og hefur viðtæka starfsreynslu í heilbrigðiskerfinu.

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fagnar því að Jón Magnús hafi verið reiðubúinn að leiða þetta mikilvæga verkefni sem viðbragðsteymið stendur frammi fyrir. Ráðuneytið lítur á það sem forgangsmál að leysa úr þeim vanda sem bráðaþjónustan í landinu á við að stríða. Sá vandi hefur birst af hvað mestum þunga á bráðamóttöku Landspítala með viðvarandi álagi sem bitnar á sjúklingum og starfsfólki.

Jón Magnús segir að fyrstu áhersluatriðin í vinnu viðbragðsteymisins vera eftirfarandi:

  • Útfæra bráðaviðbrögð sem nýtast í sumar til þess að tryggja bráðaþjónustu Landspítala og öryggi sjúklinga sem þangað leita. Til þess þurfi að grípa til margvíslegra aðgerða sem tryggja að sem flestir fái þjónustu á réttum stað í kerfinu sem getur dregið úr álagi á Landspítalanum.
  • Hlúa sérstaklega að mannauði þar sem mest álag er eins og á bráðamóttöku Landspítala.
  • Leggja allt kapp á að opna a.m.k. 100 endurhæfingar- og/eða hjúkrunarrými fyrir lok árs til að efla úrræði utan Landspítala. Þegar hafa verið tekin mikilvæg skref sem snúa að samningagerð, fjármögnun og mönnun til að tryggja að þetta gangi eftir.
  • Setja fram nokkuð ítarlega og tímasetta áætlun til næstu 3-5 ára um breytingar og umbætur í bráðaþjónustu til að bæta þjónustu, minnka sóun og auka árangur.

„Lykilinn til að ná þessum árangri er samstarf allra aðila sem koma beint og óbeint að bráðaþjónustunni og það er sérstaklega ánægjulegt að finna þann mikla og viðtæka stuðning sem þetta verkefni fær bæði innan heilbrigðisráðuneytisins og meðal allra aðila sem tengjast veitingu og notkun þjónustunnar“ segir Jón Magnús.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta