Auglýst að nýju eftir tilnefningum vegna stöðu íslensks dómara við Mannréttindadómstól Evrópu
Tveir af þeim þremur sem Ísland tilnefndi sem dómaraefni við Mannréttindadómstól Evrópu hafa dregið umsókn sína til baka. Forsætisráðuneytið mun því auglýsa eftir nýjum aðilum sem tilnefndir verða af Íslands hálfu í þeirra stað.
Auglýst var eftir umsóknum um tilnefningar í desember sl. og voru umsækjendur þrír: Jónas Þór Guðmundsson, Oddný Mjöll Arnardóttir og Stefán Þór Geirsson. Fimm manna hæfisnefnd sem forsætisráðherra skipaði mat alla umsækjendur hæfa til að verða tilnefnd af Íslands hálfu og voru þeir tilnefndir í kjölfarið. Gerði ráðgjafanefnd sérfræðinga á vegum Evrópuráðsins ekki athugasemdir við það mat.
Nefnd Evrópuráðsþingsins um kjör dómara við Mannréttindadómstól Evrópu fundaði þann 7. júní þar sem rætt var um tilnefningar Íslands og viðtöl við umsækjendur fóru fram. Áður en nefndin tók ákvörðun um hvort hún myndi mæla með umsækjendunum, drógu tveir þeirra umsókn sína til baka.
Til þess að Ísland geti skilað lista með þremur tilnefningum verður því auglýst á ný eftir umsækjendum og verður ferlinu flýtt eins og kostur er. Sá umsækjandi sem dró ekki umsókn sína til baka heldur sæti sínu á listanum.