Hoppa yfir valmynd
24. júní 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Tillögur starfshóps um framtíðarskipulag myndgreiningarþjónustu

Starfshópur sem heilbrigðisráðherra skipaði í febrúar sl. til að gera tillögur um framtíðarskipulag læknisfræðilegrar myndgreiningarþjónustu hefur skilað honum skýrslu þar sem núverandi staða er greind og gerðar tillögur til úrbóta. Ráðherra segir mikinn feng að greiningu hópsins á núverandi stöðu og tillögum hans: „Við þurfum að ná betur utan um þessa þjónustu og skipulag hennar til að nýta betur fjármuni, mannauð og tækjakost. Markmiðið er að veita sjúklingum bestu mögulegu þjónustu sem völ er á og tryggja sem jafnast aðgengi að henni, óháð búsetu.“

Læknisfræðileg myndgreining er ein af sérgreinum læknisfræðinnar og umfangsmikill hluti nútímalæknisþjónustu. Sérgreinin fjallar um greiningu, mat og meðferð á sjúkdómum með aðstoð myndrannsókna og ýmissa myndgreiningartengdra inngripa. Mismunandi myndgreiningaraðferðir eru notaðar eins og t.d. tölvusneiðmyndir, röntgenmyndataka, ómun með hljóðbylgjum, segulómum, ísótóparannsóknir og jáeindaskönnun. Vægi myndgreiningar fer sívaxandi og er nú hluti af greiningu og meðferð flestra sjúklinga. Fagið krefst því náinnar samvinnu við lækna annarra sérgreina og heilbrigðisstétta.

Í skýrslu starfshópsins segir að myndgreining hafi á undanförnum árum vaxið umtalsvert án markvissrar stefnu í þjónustunni. Aðgengi að myndgreiningarrannsóknum er almennt mjög gott og benda tölur til að Íslendingar noti ákveðnar tegundir myndgreiningar meira en samanburðarþjóðir. Hópurinn telur að kanna þurfi nánar ástæðuna fyrir þessum fjölda myndrannsókna og hvort  tækifæri geti falist í fækkun slíkra rannsókna án þess að það komi niður á heilsu þjóðarinnar.

Myndgreining á Íslandi er að mestu fjármögnuð af ríkinu en rekstrarform þjónustuveitenda er mismunandi. Starfshópurinn bendir á ójafna samkeppnisstöðu þjónustuveitenda sem bitnar helst á mönnun innan Landspítala og einnig að kostnaðargreiningu skorti. Hópurinn segir núverandi kostnaðarviðmið ónákvæm, ógagnsæ og órökstudd. Einnig sé vistun myndrannsóknagagna dreifð milli þjónustuaðila og samtengin milli myndgreiningarkerfa ófullnægjandi. Þá sé sjúkraskrárkerfi landsins ábótavant sem hafi slæm áhrif á framþróun og skilvirkni myndgreiningarþjónustu. Því sé brýnt að bæta tengingar milli þeirra myndgreiningarkerfa sem eru í notkun og síðan innleiða heildstætt sjúkraskrárkerfi fyrir allt landið og miðlæga vistun myndgreiningagagna. 

Margvísleg tækifæri til úrbóta

Starfshópurinn leggur m.a. til að ráðist verði í ýtarlega kostnaðargreiningu þjónustunnar, greiðslukerfi þjónustunnar verði samræmd óháð rekstrarformi, hlutverk þjónustuveitenda verði skilgreind og hvaða þjónustu hver þeirra skuli veita. Jafnframt leggur hópurinn til að myndgreiningakerfin verði samþætt og miðlægum gagnagrunni og samskiptaleiðum fyrir beiðnir og svör myndgreininga komið á fót. Auk þess verði gæðavísar unnir fyrir myndgreiningu og samræmt gæðakerfi fyrir þjónustuna útbúið.

Í starfshópnum sátu fulltrúar opinberra heilbrigðisstofnana og sjálfstætt starfandi myndgreiningafyrirtækja sem sinna myndgreiningaþjónustu. Formaður starfshópsins var Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Unnið verður áfram með tillögur hópsins.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta