Ársskýrsla GRÓ 2020-2021 komin út
Fyrsta ársskýrsla GRÓ ̶ Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu er komin út. Skýrslan nær yfir fyrstu tvö árin í starfsemi miðstöðvarinnar, 2020-2021. GRÓ er sjálfstæð miðstöð sem tók til starfa 1. janúar 2020 og starfar undir merkjum UNESCO, Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Miðstöðin fellur undir utanríkisráðuneytið sem sinnir eftirliti og umsýslu með framlögum til hennar.
GRÓ skólarnir fjórir, Jarðhitaskólinn, Sjávarútvegsskólinn, Landgræðsluskólinn og Jafnréttisskólinn, hafa starfað um áratugaskeið og frá upphafi verið ein af meginstoðum í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Allir vinna þeir að því að efla getu stofnana og einstaklinga í þróunarríkjunum á sviðum þar sem Ísland býr yfir sérþekkingu.
Í ársskýrslunni er stutt samantekt á íslensku á því sem bar hæst þessi fyrstu tvö ár í starfi miðstöðvarinnar. Þá er á ítarlegri hátt sagt á ensku frá miðstöðinni og stjórnun og rekstri hennar. Einnig er gerð grein fyrir starfi skólanna fjögurra, sem starfa undir GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, á tímabilinu. Allir skólarnir fjórir störfuðu með nokkuð eðlilegum hætti árið 2021, en árið 2020 hafði heimsfaraldurinn veruleg áhrif á starfsemina. Þá er fjallað um fjármál miðstöðvarinnar og gefin dæmi um árangur af starfi skólanna á þessum tveimur árum.