Þrjú störf auglýst hjá háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu
Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hefur auglýst þrjú störf laus til umsóknar. Umsóknarfrestur fyrir öll störfin er til 18. júlí og má finna allar nánari upplýsingar á Starfatorgi.
Leitað er eftir snillingi á sviði nýsköpunar sem býr yfir víðtækri þekkingu og reynslu af stuðningsumhverfi nýsköpunar og vill leggja sitt af mörkum til að byggja upp traustan grundvöll fyrir hugvitsdrifna nýsköpun á öllum sviðum. Starfið felst í mótun stuðningsumhverfis og alþjóðasamstarfi á sviði nýsköpunar og sjálfbærrar atvinnuþróunar.
Spekingar á sviði háskóla og vísinda eru hvattir um að sækja um starf sem felst í stefnumótun og alþjóðasamstarfi um stuðning við öflugt háskóla- og vísindastarf. Leitað er að kraftmiklum einstaklingi sem býr yfir yfirgripsmikilli reynslu og þekkingu og vill leggja sitt af mörkum til uppbyggingar framúrskarandi háskóla.
Loks auglýsir ráðuneytið eftir talnaspekingi sem elskar árangursmælikvarða í starf sem felst í framsetningu, skilgreiningu og mati á mælikvörðum ásamt árangursmati á þeim verkefnum sem ráðuneytið stýrir. Gert er ráð fyrir að umsækjendur kunni að lesa skýrar niðurstöður úr flóknum gögnum og miðla þeim áfram á einfaldan og skýran hátt þar sem ráðuneytið þarf vissulega að vita hvort þær aðgerðir sem það stendur fyrir séu að virka eða ekki.