Utanríkisráðherrar Norðurlanda funduðu í Bodö
„Norðurlöndin eru nánustu samstarfsríki Íslands í utanríkismálum. Í ljósi gjörbreyttrar stöðu öryggismála í Evrópu sem blasir við eftir ólögmæta og ofsafengna innrás Rússlands í Úkraínu er sérstaklega mikilvægt að Norðurlöndin beri saman bækur sínar líkt og við gerðum í Norður-Noregi í dag,” segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
Hún segir fundinn jafnframt hafa verið mikilvægt tækifæri fyrir ráðherranna til að stilla saman strengi fyrir leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins sem fram fer í Madríd síðar í vikunni. Ráðherrarnir ræddu einnig stöðu umsókna Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu og mikilvægi þess að aðildarferlið verði til lykta leitt sem fyrst.
Auk Þórdísar Kolbrúnar tóku þátt í fundinum Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands, Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar og Anniken Huitfeldt, utanríkisráðherra Noregs, en Norðmenn leiða samstarf utanríkisráðherra Norðurlanda í ár.