Dómsmálaráðherrar vilja auka norrænt samstarf gegn netglæpum
Jón Gunnarsson sat nýlega fund norrænna dómsmálaráðherra sem haldinn var í Finnskogen í Noregi. Norðmenn fara um þessar mundir með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni en Ísland tekur við formennsku á næsta ári. Samskonar fundur dómsmálaráðherra verður þá haldinn á Íslandi.
Umræðuefni ráðherrafundarins að þessu sinni voru netglæpir, kynferðisbrot, skipulögð brotastarfsemi og glæpagengi. Samþykkt var að skoða hvernig auka mætti samstarf Norðurlandanna gegn netglæpum.
Norræna ráðherranefndin er samstarfsvettvangur norrænu ríkisstjórnanna. Norræna ráðherranefndin vinnur að sameiginlegum lausnum á þeim sviðum þar sem Norðurlöndin geta náð betri árangri með því að vinna saman en með því að leysa verkefnin hvert í sínu lagi.