Hoppa yfir valmynd
30. júní 2022 Heilbrigðisráðuneytið

Breytt þjónusta á Vífilsstöðum – skammtímainnlagnir og endurhæfingarþjónusta

Breytt þjónusta á Vífilsstöðum – skammtímainnlagnir og endurhæfingarþjónusta - myndStjórnarráðið

Ákveðið hefur verið að byggja upp á Vífilsstöðum þjónustu fyrir aldraða með áherslu á skammtímainnlagnir og endurhæfingu. Nýrri þjónustu er ætlað að veita markvissari stuðning fyrir aldraða sem búa sjálfstæðri búsetu og eru ekki í bið eftir dvöl á hjúkrunarheimili. Sjúkratryggingar Íslands hafa auglýst eftir rekstraraðila til að annast þjónustuna.

Þjónustunni á Vífilsstöðum er ætlað að verða mikilvægur hlekkur í þjónustukeðju fyrir aldraðra og öflugur bakhjarl fyrir heimahjúkrun, heimahlynningu og Landspítala. Þess er vænst að þessi nýja þjónusta verði mikilvæg viðbót til að styðja við búsetu aldraðra á eigin heimili og muni jafnframt draga úr þörf fyrir innlagnir á Landspítala.

Áhersla verður lögð á skemmri innlagnir aldraðra einstaklinga til að veita einfaldari meðferðir sem ekki er hægt að veita i heimahúsi en krefjast ekki innlagnar á sjúkrahús. Skammtímainnlagnirnar munu þannig nýtast þeim sem þurfa heilbrigðisþjónustu eða aukna umönnun tímabundið, t.d. vegna breytinga á líðan eða félagslegum aðstæðum. Markmiðið verður að viðkomandi geti útskrifast heim aftur innan tveggja vikna. Auk þess verður á Vífilsstöðum veitt líknarþjónusta fyrir aldraða sem geta ekki dvalist heima í lokaskeiði lífsins.

Færni- og heilsumat verður ekki forsenda fyrir innlögn á Vífilsstaði heldur miðað við að veitendur heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu og Landspítali geti óskað innlagnar fyrir skjólstæðinga sína þegar þörf krefur.

Stefnt er að því að þróa þjónustuna í samvinnu við nýjan rekstraraðila, veitendur heimahjúkrunar á höfuðborgarsvæðinu og Landspítala.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta