Hulda Elsa og Ásgeir Þór skipuð aðstoðarlögreglustjórar
Skipað hefur verið í tvær stöður aðstoðarlögreglustjóra hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sem auglýstar voru fyrr á árinu.
Hulda Elsa Björgvinsdóttir skipuð aðstoðarlögreglustjóri á ákærusviði
Hulda Elsa Björgvinsdóttir lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands og hlaut héraðsdómslögmannsréttindi árið 2004. Hún starfaði sem afleysingamaður í lögreglunni og síðar sem löglærður fulltrúi hjá lögreglunni í Reykjavík. Hún starfaði hjá ríkissaksóknara um ellefu ára skeið og hefur verið sviðsstjóri ákærusviðs lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá því 2016. Frá árinu 2017 hefur hún verið staðgengill lögreglustjóra og einnig tvívegis verið settur lögreglustjóri.
Auk þess að vera lögreglustjóra til aðstoðar í samræmi við ákvæði lögreglulaga nr. 90/1996 og reglugerðar nr. 1051/2006 um starfsstig innan lögreglu fer aðstoðarlögreglustjóri með stjórn ákærusviðs embættisins.
Ákærusvið embættisins annast ákærumeðferð mála og eru starfsmenn sviðsins lögreglumönnum innan handar við rannsóknir mála. Undir sviðið heyra þrjú ákæruteymi, teymi eitt sem sinnir miðlægum málum embættisins, teymi tvö sem sinnir umferðarmálum og öðrum verkefnum og teymi þrjú sem sinnir verkefnum lögreglustöðva embættisins.
Einn sótti um þetta embætti auk Huldu Elsu og taldi matsnefnd að bæði teldust mjög vel hæf til að hljóta skipun í embætti aðstoðarlögreglustjóra.
Ásgeir Þór Ásgeirsson skipaður aðstoðarlögreglustjóri á löggæslusviði
Ásgeir Þór útskrifaðist frá Lögregluskóla ríkisins vorið 1991 og lauk síðar stjórnunarnámi fyrir æðstu stjórnendur lögreglu. Hann hóf störf hjá lögreglunni árið 1989 sem sumarstarfsmaður og starfaði sem lögreglumaður í almennri deild og við umferðarlöggæslu.
Ásgeir Þór var aðalvarðstjóri í almennri deild um fimm ára skeið, síðar yfirmaður umferðar- og aðgerðardeildar hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, þjálfari í sérsveit til sex ára og yfirlögregluþjónn á löggæslusviði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2017. Hann hefur starfað fyrir alþjóðalögreglulið Sameinuðu þjóðanna í Kósóvó og tekið að sér verkefni á vegum utanríkisþjónustunnar og Atlantshafsbandalagsins í Afganistan.
Auk þess að vera lögreglustjóra til aðstoðar í samræmi við ákvæði lögreglulaga nr. 90/1996 og reglugerðar nr. 1051/2006 um starfsstig innan lögreglu fer aðstoðarlögreglustjóri með stjórn löggæslusviðs embættisins. Löggæslusvið embættis sinnir almennri löggæslu en undir sviðið heyra fjórar lögreglustöðvar embættisins auk aðgerðardeildar og umferðardeildar.
Fimm sóttu um embættið og voru tveir umsækjendur taldir mjög vel hæfir.