Samhæfingarnefnd um velferð og virkni á vinnumarkaði
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur ákveðið að skipa samhæfingarnefnd um velferð og virkni á vinnumarkaði. Leiðarljós nefndarinnar er að blása til sóknar á íslenskum vinnumarkaði með áherslu á réttlát umskipti, jöfn tækifæri til vinnu og velferð fólks á vinnumarkaði.
Nefndin mun fjalla um mögulegar leiðir til að fjölga sveigjanlegum störfum og hlutastörfum, t.a.m. með samkomulagi ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs. Markmið þess er að tryggja fólki með mismikla starfsgetu fjölbreytt störf, bætt lífskjör og viðundandi starfsaðstæður og þannig auka fjölbreytileika og fjölga tækifærum til þátttöku á vinnumarkaði. Þá mun nefndin skoða áhrif loftslags- og tæknibreytinga á þróun vinnumarkaðarins, þ.m.t ólíkar starfsgreinar og þjóðfélagshópa. Ennfremur hvernig megi bæta gagnaöflun og gagnavinnslu um vinnumarkaðinn. Nefndin mun einnig leita leiða til að stuðla að aukinni velferð á vinnumarkaði með áherslu á aðgerðir til að styðja við endurkomu og draga úr ótímabæru brotthvarfi af vinnumarkaði.
Loks verði nefndinni falið að móta heildstæða stefnu um málefni ungs fólks á vinnumarkaði, þar sem áhersla verði á að lækka hlutfall ungmenna og ungs fólks sem eru ekki í vinnu, námi eða starfsþjálfun (NEET).
Í nefndinni eigi sæti fulltrúar ráðuneyta, samtaka launafólks, atvinnurekenda, sveitarfélaga og hagsmunasamtaka, með aðkomu stofnana og annarra hlutaðeigandi aðila eftir því sem við á. Víðtækt samráð verður því haft um vinnu að aukinni velferð og virkni á vinnumarkaði.
Nefndin skili fyrstu tillögum sínum til ráðherra í október 2022, þar sem lögð verði áhersla á fjölgun hlutastarfa og sveigjanlegra starfa. Þá skili nefndin næstu tillögum í nóvember 2022, með áherslu á aðgerðir er snúa að velferð á vinnumarkaði. Nefndin mun skila skýrslu með niðurstöðum sínum, heildartillögum og greinargerð um vinnu nefndarinnar í lok árs 2022. Þá hyggst félags- og vinnumarkaðsráðherra boða til Vinnumarkaðsþings þar sem afrakstur vinnunnar verður kynnt.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra:
Markmið vinnunnar er að boða byltingu á vinnumarkaði með fjölgun hlutastarfa og sveigjanlegra starfa og því að tryggja hér sveigjanlegri, heilbrigðari og traustari vinnumarkað fyrir öll sem hér búa, fyrir fatlað fólk, fyrir innflytjendur, fyrir fólk sem hefur veikst eða ekki náð að fóta sig í lífinu. Skipun nefndarinnar er hluti af aðgerðum er snúa að því að bæta afkomu og möguleika fólks með mismikla starfsgetu til aukinnar virkni, menntunar og atvinnuþátttöku á forsendum hvers og eins með það að markmiði að bæta lífskjör og lífsgæði fólks.