Opnað fyrir umsóknir um styrki til íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar vegna heimsfaraldurs
Opnað hefur verið fyrir umsóknir um mótvægisstyrki til íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar vegna heimsfaraldurs. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kynnti ásamt ÍSÍ forsendur úthlutunar og umsóknarferlið á kynningarfundi ráðherra með hreyfingunni í dag. Markmiðið er að bæta að hluta tekjutap og aukin útgjöld af völdum samkomutakmarkana.
Stjórnvöld hafa stutt við íþrótta- og æskulýðsfélög með ýmsum hætti á tímum COVID-19. Íþróttafélög fengu 1.400 m.kr. endurgreiddar vegna launakostnaðar og verktakagreiðslna. Um 600 m.kr. hafa runnið til fjölskyldna barna á efnaminni heimilum með sérstökum íþrótta- og tómstundastyrkjum. Þá hafa um 900 m.kr. verið greiddar til íþrótta- og æskulýðsfélaga á árunum 2020-2021. Allt að 500 m.kr. verða veittar nú til að hreyfingin standi keik í kjölfar faraldurs.
Ásmundur Einar Daðason, ráðherra íþróttamála:
„Við höfum lagt ríka áherslu á að standa þétt með íþrótta- og æskulýðshreyfingunni í gegnum erfiða tíma. Stuðningurinn sem nú er til umsóknar er liður í samhæfðum aðgerðum stjórnvalda til að halda öflugu íþrótta- og æskulýðsstarfi gangandi og bæta það tjón sem samkomutakmarkanir hafa haft í för með sér.“
Sérsambönd, héraðssambönd og íþróttabandalög, íþróttafélög með aðild að ÍSÍ og UMFÍ og deildir innan íþróttafélaga geta sótt um stuðning, auk æskulýðsfélaga. Umsækjendur þurfa að sýna fram á tekjutap eða kostnaðarauka vegna viðburða sem þurfti að fella niður eða breyta verulega vegna samkomutakmarkana af völdum COVID-19.
Mennta- og barnamálaráðuneytið tilkynnti um styrkveitinguna í vor og fól Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) að halda utan um umsóknarferlið. Undirbúningsvinnu er nú lokið og hefur verið opnað fyrir umsóknir. Sótt er um styrk á umsóknarsvæði ÍSÍ vegna COVID-19, þar sem finna má nánari leiðbeiningar. Umsóknarfrestur er til og með 2. ágúst nk.