Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2022 Utanríkisráðuneytið

Ísland staðfestir samninga um aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu

Bergdís Ellertsdóttir sendiherra Íslands gagnvart Bandaríkjunum ásamt Doug Jones og Fracis J. Holleran í bandaríska utanríkisráðuneytinu. - mynd

Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands gagnvart Bandaríkjunum, afhenti í dag bandaríska utanríkisráðuneytinu aðildarskjöl Íslands vegna viðbótarsamninga um aðild Finnlands og Svíþjóðar að Atlantshafsbandalaginu. Alþingi hafði áður með þingsályktun, hinn 7. júní síðastliðinn, heimilað ríkisstjórninni að staðfesta aðildarsamningana þegar þeir lægju fyrir. 

Ísland er meðal allra fyrstu bandalagsríkjanna til ljúka staðfestingarferlinu. Samningarnir voru undirritaðir í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í Brussel í gærmorgun, hinn 5. júlí. Staðfest eintök undirritaðra samningsskjala bárust utanríkisráðuneytinu um hádegisbilið sama dag, en forseti Íslands undirritaði aðildarskjölin í hádeginu. Skjölunum var því næst flogið til Bandaríkjanna um fimmleytið í gær með flugvél Icelandair. Lokahnykkurinn var svo í dag, um klukkan níu að staðartíma í Washington, þegar sendiherrann afhenti frumrit aðildarskjala Íslands líkt og stofnsáttmáli NATO áskilur. 

„Undirritun viðbótarsamninganna í gær markar söguleg tímamót fyrir Finnland, Svíþjóð og NATO. Hröð afgreiðsla aðildarumsókna þessara tveggja norrænu vinaþjóða er merki um sterka samstöðu bandalagsríkja og styrkir Atlantshafsbandalagið og þau mikilvægu gildi sem það hvílir á,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.

Vonir standa til að öll bandalagsríkin nái að ljúka staðfestingarferlinu síðar á árinu. Þegar ferlinu lýkur verða bandalagsríkin orðin 32, að meðtöldu Finnlandi og Svíþjóð.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta