Samstarf við Stertabenda um sýninguna Góðan daginn, faggi á landsbyggðinni
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Snæbjörnsson, f.h. Stertabenda – leikhóps, undirrituðu í dag samstarfssamning um sýningar á verkinu Góðan daginn, faggi í framhaldsskólum á landsbyggðinni.
Góðan daginn, faggi er sjálfsævisögulegur heimildasöngleikur þar sem fertugur hommi leitar skýringa á skyndilegu taugaáfalli sem hann fékk upp úr þurru einn blíðviðrisdag. Eftir vandasaman leiðangur um innra líf sitt, fortíð og samtíma rekst hann á rætinn hommahatara á óvæntum stað. Sýningin er afhjúpandi leiðangur um skömm og mennsku og einlægt samtal við drauminn um að tilheyra.
Með samningnum greiðir forsætisráðuneytið Stertabenda – leikhópi eina milljón króna fyrir að bjóða framhaldsskólum á landsbyggðinni að sýna sýninguna frítt eða á viðráðanlegum kjörum. Þannig verður unnið gegn vanlíðan unglinga um land allt, fordómum og hatursorðræðu, sem því miður hefur færst í aukana að undanförnu.