Hoppa yfir valmynd
15. júlí 2022 Utanríkisráðuneytið

Ísland styður við kyn- og frjósemisheilbrigði í Mangochi-héraði

Inga Dóra Pétursdóttir forstöðumaður sendiskrifstofu Íslands í Malaví og Pansi Katenga fulltrúi IPAS-samtakanna. - mynd

Íslensk stjórnvöld hafa gert samstarfssamning við félagasamtökin IPAS í Malaví um bætta heilbrigðisþjónustu fyrir konur og stúlkur sem þjást af eftirköstum ólögmætra þungunarrofa í Mangochi, samstarfshéraði Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu.

Verkefnið, sem framkvæmt verður í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld í Mangochi, byggist á samstarfi sendiráðs Íslands í Malaví við IPAS. Samningurinn hljóðar upp á 315 þúsund bandaríkjadali og er markmiðið að efla við kyn- og frjósemisheilbrigði í héraðinu, en Ísland styður þar nú þegar við bætt aðgengi að getnaðarvörnum í samvinnu við Mannfjöldasjóð Sameinuðu þjóðanna (UNFPA).

Mikill fjöldi kvenna og stúlkna á barneignaraldri gengst undir þungunarrof við óöruggar og óheilsusamlegar aðstæður í Malaví en löggjöf landsins heimilar þungunarrof einungis ef meðganga ógnar lífi verðandi móður. Afleiðingarnar ólögmæts þungunarrofs eru oft lífshættulegar, en um fimmtungur mæðradauðatilfella í Malaví má rekja til slíkra aðgerða og afleiðinga þeirra. IPAS-samtökin kortlögðu þann fjölda kvenna og stúlkna sem þurfti á bráðaaðgerð að halda vegna vandkvæða eftir óörugg þungunarrof. Samkvæmt úttekt IPAS koma að meðaltali 77 stúlkur og konur daglega til slíkra bráðaaðgerða í landinu og er tíðnin einna hæst í Mangochi.

Verkefnið fellur vel að mannréttinda- og jafnréttisáherslum Íslands í þróunarsamvinnu og styður um leið við mikilvægan en jafnframt vanræktan þátt á sviði kyn- og frjósemisheilbrigðis.

IPAS eru alþjóðleg frjáls félagasamtök sem starfa að bættu aðgengi að getnaðarvörnum og þungunarrofi við öruggar aðstæður víða um heim.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta